,,Við erum mjög ánægðir. Við stefndum á að ná í 2-3 leikmenn og við erum komnir með þrjá unga stráka sem við höfum virkilega trú á. Við höfum trú á því að þeir styrki okkar leikmannahóp," sagði Rúnar Kristinsson þjálfari KR þegar liðið kynnti þrjá nýja leikmenn til sögunnar í gær.
KR hefur fengið Atla Sigurjónsson frá Þór, Hauk Heiðar Hauksson frá KA og Þorstein Má Ragnarsson frá Víkingi Ólafsvík.
,,Þessir strákar eru mjög duglegir inni á vellinum og hafa metnað og vilja ná langt. Við viljum hafa drengi sem leggja á sig og hafa metnað fyrir að komast aðeins lengra en að spila á Íslandi."
Möguleiki er á að markvörður bætist einnig í hóp KR-inga en Atli Jónasson, sem var varamarkvörður í sumar, er farinn í KV. Fjalar Þorgeirsson hefur æft með KR að undanförnu og hann gæti samið við Vesturbæinga.
,,Fjalar er búinn að spila í byrjunarliði í efstu deild í mörg ár og er frábær markmaður. Það er spurning hvort hann treysti sér í samkeppni hér, ég vona það því hann er frábær markmaður og er búinn að standa sig gríðarlega vel á þeim æfingum og æfingaleikjum sem hann hefur tekið þátt í með okkur."
,,Okkur langar virkilega að reyna að semja við hann en við þurfum að sjá hvað hann vill líka. Við höfum ekki ennþá sest niður og rætt þessi mál alvarlega en við höfum í hyggju að gera það fyrr en síðar."
Jordao Diogo er sem stendur í láni hjá gríska félaginu Panserraikos og ólíklegt er að hann verði með KR næsta sumar þrátt fyrir að hafa skrifað undir nýjan samning við félagið.
,,Jordao samdi við okkur í haust og var lánaður aftur til Grikklands. Hann hefur áhuga á að spila erlendis og við vitum af áhuga hans á því. Kannski snýst hugur hans eftir að hafa verið í Grikklandi í vetur og ef hann kemur til baka í maí viljum við endilega hafa hann hjá okkur. Hann er góður leikmaður en hugur hans leitar á heimahagana, hann vill komast út og það er ólíklegt að hann verði hjá okkur."
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.