Liverpool og Barcelona hafa áhuga á Alvarez - Bilic gæti tekið við West Ham - Man Utd ætlar að fá inn markvörð næsta sumar
   þri 23. september 2025 23:30
Ívan Guðjón Baldursson
Meinuð innganga eftir að hafa flogið hálfan hnöttinn
Mynd: EPA
Mynd: EPA
James frá Suður-Kóreu elskar fótbolta og er mikill aðdáandi Son Heung-min eins og margir samlandar hans. Hann heldur enn með Tottenham þó að Son sé búinn að skipta yfir til Bandaríkjanna.

James ætlaði að upplifa ævilangan draum sinn um að horfa á úrvalsdeildarleik þegar Brighton tók á móti Tottenham um helgina og gerðu liðin 2-2 jafntefli eftir kaflaskiptan leik.

Hann keypti flugmiða til Englands og miða á leikinn á Amex leikvanginum. James borgaði 900 pund, sem eru tæplega 150 þúsund íslenskar krónur, fyrir miðann sem hann keypti á endursölusíðu.

Þegar komið var að innganginum var honum ekki hleypt inn. Miðinn virkaði ekki og því þurfti James að fara að tala við miðasöluna. Þar var honum gert grein fyrir því að endursala á miðum á leiki í ensku úrvalsdeildinni sé ólögleg og miðinn því ógildur.

„Ég er mjög vonsvikinn, ég vissi ekki af þessari reglu," sagði James mjög svekktur í viðtali fyrir utan Amex leikvanginn. „Mér hefur verið sagt að ég skuli reyna að fá endurgreiðslu fyrir miðanum."

James var aðeins einn af rúmlega 200 manns sem keyptu ólöglega endursölumiða á leikinn í Brighton og komust ekki inn.

Ensk úrvalsdeildarfélög eru að taka sífellt harðar á ólöglegum endursölumiðum og hafa fundið ýmsar leiðir til að koma auga á slíka miða.

Stuðningsmenn Brighton sem verða uppvísir að því að endurselja miðana sína fá ekki að mæta aftur á leikvanginn í nokkur ár, auk þess að fá sekt.
Athugasemdir
banner