Páll Einarsson þjálfari Þróttar var nokkuð sáttur með markalaust jafntefli sinna manna gegn Val í Reykjavíkurmótinu í dag.
Lestu um leikinn: Valur 0 - 0 Þróttur R.
,,Ég er bara nokkuð sáttur með jafntefli og að halda hreinu, það er alltaf gott. Á móti fínu Valsliði er ég bara sáttur," sagði Páll við Fótbolta.net eftir leikinn.
,,Við fengum nokkur færi en þau voru ekki mörg, Valsmenn fengu fleiri. Ögmundur stóð sig frábærlega í markinu, en ég er heilt yfir nokkuð sáttur við mína menn. Þeir börðust allan leikinn og unnu vel saman, þannig að ég er mjög ánægður með þá."
Þróttarar áttu ekki gott undirbúningstímabil í fyrra og var þeim spáð rakleitt niður í 2. deildina. Þeir stóðu sig þó betur en menn höfðu gert ráð fyrir og náðu fínum árangri. En er liðið í betra standi núna heldur en á síðasta undirbúningstímabili?
,,Það er svolítið erfitt að segja. Við erum að lenda í smá breytingum á liðinu en við vinnum bara áfram okkar vinnu og sjáum hvað það fer langt með okkur."
Sveinbjörn Jónasson spilaði allan leikinn fyrir Þrótt, en hann hefur verið orðaður við félög í Pepsi deildinni. Páll gat ekki staðfest það með berum orðum að hann yrði áfram í Laugardalnum.
,,Hann er náttúrulega Þróttari og verður Þróttari. Við erum bara sáttir með það," sagði Páll Einarsson þjálfari Þróttar.