,,Við vorum ekkert sérstakir í dag, sérstaklega í fyrri hálfleik þar sem við vorum arfaslakir," sagði Gunnleifur Gunnleifsson markvörður FH eftir 2-0 tap gegn Val í Lengjubikarnum í kvöld.
Lestu um leikinn: Valur 2 - 0 FH
,,Við reyndum þó að spýta í lófana í seinni hálfleik en náðum ekki að setja á þá mark og náðum ekki að skapa eða opna á þá."
Þetta var annar leikurinn í röð sem þeir fá á sig tvö mörk, lentu 2-0 undir gegn Fylki á fimmtudaginn en unnu þá 3-2.
,,Það er alltaf áhyggjuefni að fá á sig mörk og ég tala ekki um ef við töpum eins og í dag. En ég hef fulla trú á að við náum að laga þetta," sagði Gunnleifur en voru einhverjir jákvæðir punktar í kvöld?
,,Kannski ekki mikið, við stigum upp í seinni hálfleik og vorum mun betri aðilar. Ungir strákar sem voru að standa sig vel þarna sem komu inn á, það er alltaf hægt að tína eitthvað til."
Heimir Guðjónsson þjálfari FH gerði þrefalda skiptingu í hálfleik, annan leikinn í röð.
,,Þið verðið að spyrja hann, hann stýrir liðinu. Allir FH-ingar voru ósáttir við fyrri hálfleikinn og ekki skrítið að við gerðum einhverjar breytingar til að reyna að laga leik okkar."
,,Við erum komnir áfram og þó við höfum viljað vinna riðilinn þá þýðir ekki að grenja það, við erum búnir með keppnina, förum núna út og stillum saman strengi okkar og komum svo sterkir inn í 8 liða úrslitin."
,,Það verður æft grimmt úti, við þéttum hópinn og komum svo geysilega öflugir til baka."
Athugasemdir