Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   mán 11. júní 2012 13:30
Sam Tillen
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Komið að Evrópumótinu
Sam Tillen
Sam Tillen
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Það er komið að Evrópumótinu. Fyrir stuðningsmann Englendinga er þetta tími þar sem miklar væntingar og vonir eru skotnar niður. Fyrir hvert einasta stórmót eru fjölmiðlarnir og þjóðin búin að undirbúa sig fyrir tilfinningaríkt og þjóðrækið æði.

Fjölmiðlar tileinka ‘strákunum okkar’ klukkutíma eftir klukkutíma og síðu eftir síðu. Fótboltaæði grípur þjóðina. Á hveru húsi eru fánar, ensk lög eins og ‘World in Motion’ (með besta rappi sögunnar….með John Barnes) og ‘Three Lions’ eru spiluð í útvarpinu og á tónlistarstöðvum. VH1 er yfirleitt með tveggja tíma niðurtalningu með fótboltalögum fyrir leiki fyrir hörðustu stuðningsmennina.

Að minnsta kosti klukkutíma fyrir leik eru allt troðfullt á börum og pöbbum þar sem menn, konur og börn flykkjast að. Stundum þarftu að mæta 2-3 klukkutímum fyrir leik til að ná góðu plássi til að sjá á risaskjáinn. Það er hins vegar einungis frábær afsökun fyrir því að byrja að drekka ennþá fyrr! Í upphitunarþáttunum í sjónvarpinu eru myndbrot af því þegar draumar okkar voru eyðilagðir á árum áður. Gazza að teygja sig í boltann og misnota færi gegn Þjóðverjum á EM 96, Southgate að misnota vítaspyrnu, Chris Waddle að skjóta yfir markið á Ítalíu 90. Beckham rekinn út af gegn Argentínu, Keegan að misnota færi gegn Spánverjum 82, mark Sol Campbell sem var dæmt af gegn Portúgal áður en við duttum út í vítaspyrnukeppni.

Þetta er allt undanfari viðtala og endurminninga frá sigrinum á HM 1966. Vanalega koma Geoff Hurst og hinir leikmennirnir sem tóku þátt í þessu magnaða afreki og segja okkur hvernig við ‘getum gert þetta aftur.’ Andrúmsloftið byggist upp í stúdíóinu áður en lýsendurnir taka við útsendingunni. Á öllum leikvöngum, hvort sem það er í Suður-Afríku eða Suður-Kóreu er fullt af St George fánum. Hundruðir fánar hanga víðsvegar á leikvanginum. Við eigum okkar galla sem þjóð en þegar kemur að því að styðja landslið okkar erlendis þá gerir það enginn af sama krafti.

Það verður allt vitlaust á börunum þegar leikmennirnir birtast og blanda af drukknu fólki og bjartsýni er í húsinu. 'God save the Queen' er sungið af þjóðrækni eins og leikmennirnir geti í alvöru heyrt í þeim frá suður Englandi.

Síðan hefst leikurinn.

Næstu 2 klukkutímana er þjóðin í heljargreipum. Allt stoppar, skólar og öll atvinna. Aukningin í notkun á rafmagni er mikil í hálfleik þegar þeir sem eru ekki heima hjá sér fara og fá sér te í hálfleik. Stuðningsmennirnir mála andlit sín, eru í treyjum enska landsliðsins og öðrum fatnaði…það eru meira að segja grímur sem fólk klippir út og notar. Við höfum meðal annars haft Sven Goran Eriksson grímu þökk sé the Sun og já, fólk notar þessar grímur. Þegar David Beckham braut metatarsal beinið í fæti sínum þá var the Sun með heila blaðsíðu með mynd af fæti þar sem þú gast sett fingurinn á svæðið þar sem meiðslin voru og beðið fyrir því að hann myndi ná sér sem fyrst. Við viljum ólmir ná velgengni!

Eftir því sem líður á leikinn verða öskrin hærri, óp þegar að skot er nálægt því að fara inn, fögnuður yfir alvöru tæklingu og mikið af tuði! Við höfum alltaf okkar sökudólg, einhvern sem við getum kennt um taktísk eða tæknileg mistök. Á síðasta móti höfðum við Emile Heskey og dómarann í leiknum gegn Þjóðverjum sem missti af ‘markinu” hjá Frank Lampard. Við höfum verið með David Beckham, Darius Vassell, Sven Goran Eriksson og Steve McClaren ‘the wally with a brolly’ þegar við komumst ekki á EM 2008. Það er enginn vafi á því að á næstu vikum verður einhverjum öðrum kennt um þegar okkur mistekst enn á ný. Ég giska á að það verði Andy Carroll eða Roy Hodgson en endilega giskið sjálf.

Þegar England skorar þá er það eins og eldgos í Kötlu. Þá ertu með bestu félögum þínum, hoppandi og öskrandi eins og brjálað dýr, fólk klifrar upp á borð og allir faðmast af slíkum krafti að þú heldur að bakið á þér muni brotna. Drykkir fljúga út um allt og appelsínusafinn minn endar yfirleitt á gólfinu….Því miður er þetta alltaf staðurinn þar sem vonir okkar og draumar enda.

Það er samt alltaf næsta mót!


Athugasemdir
banner
banner