Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 26. júní 2012 14:30
Magnús Már Einarsson
Bestur í 1. deild: Á gjörgæslu og spítala í tvær vikur
Leikmaður 7. umferðar: Darren Lough (KA)
Darren Lough fagnar sigurmarki sínu.
Darren Lough fagnar sigurmarki sínu.
Mynd: Rögnvaldur Már Helgason
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
,,Leikmenn gíruðu sig vel upp fyrir leikinn og stóðu sig vel. Við stóðum allir saman og mér fannst þetta vera góður leikur," sagði Darren Lough varnarmaður KA við Fótbolta.net í dag en hann er leikmaður umferðarinnar í fyrstu deildinni eftir frammistöðu sína í 3-2 sigrinum á Þór.

Darren byrjaði leikinn í bakverði en fór síðan í stöðu miðvarðar eftir að Gunnar Valur Gunnarsson meiddist í fyrri hálfleik. Darren átti stórleik í hjarta varnarinnar og kórónaði leik sinn með því að skora sigurmarkið undir lokin.

,,Það var erfitt að sjá eitthvað út af sólinni en ég vissi að hann myndi fara inn ef ég myndi ná að koma boltanum á markið."

Gæti orðið gott tímabil:
KA vann einungis sinn annan leik í fyrstu deildinni á fimmtudag en Darren telur að meira búi í liðinu.

,,Byrjunin hefur verið erfið en í síðustu tveimur leikjum höfum við á köflum sýnt hvað við getum gert. Við áttum góðan hálftíma gegn Grindavík (í gær) og ef við byggjum ofan á það þá gæti þetta orðið gott tímabil," sagði Darren sem kann vel við sig á Íslandi.

,,Ég kann mjög vel við mig hjá KA. Allir í kringum liðið hafa verið mjög vingjarnlegir. Ísland er allt öðruvísi en England en þetta er fín breyting. Það er allt mjög rólegt hérna og ég kann vel við það."

Heppinn að geta spilað fótbolta aftur:
Darren leikur með höfuðbúnað í leikjum KA, búnað sem er ekki ósvipaður þeim sem Petr Cech og Christian Chivu spila með en þó minni í sniðum. Ástæðan er sú að Darren meiddist illa á höfði í leik með Ashington gegn Vauxhall Motors í enska bikarnum í október í fyrra.

,,Ég var á spítala í tvær vikur og á gjörgæslu í sólarhring. Ég höfuðkúbubrotnaði og læknar segja að ég sé heppinn að geta spilað aftur. Til öryggis þarf ég að vera með höfuðbúnað í leikjum og ég er með tvær gerðir af þeim. Ég vil frekar spila með höfuðbúnað en spila ekki," segir Darren sem hugsar lítið um meiðslin í dag.

,,Þegar ég byrjaði að spila aftur reyndi ég að gleyma meiðslunum og það er allt í lagi að skalla boltann í dag. Ég hugsa ekkert um þetta lengur."

Ánægður með gengi Newcastle:
Darren ólst upp hjá Newcastle en hann fór frá félaginu fyrir tveimur árum, þá 21 árs gamall. Fólk hjá Newcastle fylgist samt vel með gangi mála hjá honum.

,,Ég fékk höfuðbúnaðinn hjá læknunum hjá Newcastle. Þeir hafa fylgst með mér síðan ég fór þaðan og ég er þakklátur þeim," sagði Darren sem var ánægður með gengi Newacastle á síðasta tímabili.

,,Þeir náðu að kaupa nokkra góða leikmenn og þetta var frábært tímabil. Vonandi er hægt að fylgja þessu eftir á næsta tímabili og ná mögulega sæti í Meistaradeildinni," sagði Darren að lokum.

Sjá einnig:
Leikmaður 6. umferðar - Björn Pálsson (Víkingur Ó.)
Leikmaður 5. umferðar - Illugi Þór Gunnarsson (Fjölnir)
Leikmaður 4. umferðar - Nigel Quashie (ÍR)
Leikmaður 3. umferðar - Ásgeir Aron Ásgeirsson (Fjölni)
Leikmaður 2. umferðar - Robin Strömberg (Þór)
Leikmaður 1. umferðar - Birkir Pálsson (Höttur)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner