„Það er einstök ánægja og mikil gleði að verða vitni af þessum mikla árangri," sagði Ólafur Ragnar Grímsson, fráfarandi Forseti Íslands, í viðtali við Fótbolta.net í Nice í dag.
Ólafur Ragnar er mættur til Frakklands til að fylgjast með leik Íslands og Englands í 16-liða úrslitum EM í kvöld.
Ólafur Ragnar er mættur til Frakklands til að fylgjast með leik Íslands og Englands í 16-liða úrslitum EM í kvöld.
„Hvernig sem leikurinn fer í kvöld þá hefur þetta verið einstök sigurganga sem hefur nú þegar verið skráð í sögubækur, ekki bara í íslenskum fótbolta og íslensku íþróttalífi, heldur líka lýðveldisins." sagði Ólafur sem hefur fylgst vel með mótinu.
„Ég og Dorrit vorum á fyrsta leiknum og það var ótrúleg upplifun. Það var skemmtilegt að verða vitni að því. Þetta augnablik þegar við skoruðum sigurmarkið í þriðja leiknum er ein af þessum stundum sem aldrei gleymast."
Ólafur Ragnar bíður spenntur eftir leiknum í kvöld en hann segir að Íslendingar megi ekki vera of kröfuharðir fyrir leik.
„Ég er bæði bjartsýnn og glaður. Hvernig svo sem leikurinn fer þá verður þetta samfelld gleðiveisla fyrir mig og alla Íslendinga. Við megum ekki vera of kröfuhörð. Ég hef hitt einstaka menn hér síðan ég kom í morgun og þeir spyrja mig hvort ég ætli ekki að koma út á úrslitaleikinn. Við megum ekki detta í þessa gryfju."
„Við megum ekki láta jafnvel tap í kvöld, skemma fyrir okkur. Ef það verður sigur þá verður gleðin svo mikil og stór að það munu ekki orð ná yfir það," sagði Ólafur.
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.
Athugasemdir