Þorvaldur Árnason
„Heilt yfir held ég að dómgæslan í sumar hafi verið góð og betri en undanfarin ár. Eins og alltaf í svona móti þá er eitt og eitt atvik sem orkar tvímælis," segir Þorvaldur Árnason, dómari ársins í Pepsi-deild karla að mati Fótbolta.net.
Í sumar var í fyrsta skipti fjórði dómari á öllum leikjum í Pepsi-deildinni og Þorvaldur fagnar því.
„Ég held að það hafi breytt þónokkuð miklu. Það er meiri vinnufriður fyrir aðstoðardómara og dómarann sjálfan. Þetta hefur líka ákveðið menntunargildi fyrir þá sem eru fjórðu dómarar. Þetta eru oft strákar sem eru í fyrstu og annarri deild og þarna fá þeir smjörþefinn af efstu deild."
Vill að dómarar fái að mæta í viðtöl
Í Svíþjóð og Noregi hafa dómarar mætt í viðtöl eftir leiki til að útskýra umdeilda dóma. Þorvaldur væri til í að sjá þetta kerfi á Íslandi.
„Persónulega er ég hlynntur því að dómarar tjái sig. Ég held að það sé öllum til góða að þeir fái að tjá sig. Ég hefði til dæmis glaður viljað tjá mig eftir leikinn í Grafarvoginum (Fjölnir-Stjarnan í 21. umferð). Ég held að það hefði hjálpað umræðunni," sagði Þorvaldur.
„Sumir eru góðir í að koma fram og aðrir eru ekki jafn góðir í því og menn gætu skorað einhver sjálfsmörk en forsendan fyrir því að tjáir þig um atvik er að þú fáir að sjá þau á myndbandi áður en þú kemur í viðtal. Upplifun á vellinum getur verið allt önnur en í sjónvarpinu."
Oft þekkingarleysi hjá leikmönnum og þjálfurum
Þorvaldur segir að umræðan um dómgæslu á Íslandi sé oft á villigötum.
„Oft á tíðum er þekkingarleysi hjá þeim sem fjalla um leikinn og það kemur mér á óvart hversu lélegir margir leikmenn og þjálfarar eru í fræðunum. Það er samt kannski ekkert skrýtið, það hefur verið þónkokkuð af breytingum á knattspyrnulögunum og svo áherslubreytingum frá UEFA. Það sem var rautt spjald í fyrra er gult spjald núna til dæmis. Ég held að við hefðum séð mun fleiri rauð spjöld fyrir 2-3 árum heldur en núna fyrir alvarlega grófan leik."
Bæta í og auka fagmennsku
Peningarnir í Pepsi-deildinni eru alltaf að verða meiri og meiri og Þorvaldur telur að KSÍ þurfi að skoða stöðuna í dómaramálum alvarlega fyrir komandi ár.
„Við þurfum að setjast aðeins niður með Knattspyrnusambandinu núna eftir tímabilið og mynda framtíðarsýn. Það er óumdeilt að Pepsi-deildin er að verða betri og betri. Leikmennirnir sem spila þarna eru hálf atvinnumenn og atvinnumenn. Við þurfum að taka dómgæsluna og dómaraumhverfið og fylgja þróuninni sem hefur átt sér stað í efstu tveimur deildunum."
„Það er klárt mál að við þurfum að bæta í og auka fagmennsku. Það er mikið undir í þessum deildum, hvort menn komist upp, falli eða fari í Evrópukeppni. Það eru miklir peningar undir og við verðum að gera dómara að meiri fagmönnum en þeir eru."
Þorvaldur segir að eitt af því sem þurfi að bæta séu laun dómara. „Það er einn þáttur. Við erum með lengsta undirbúningstímabil í heimi og það er mjög undarlegt að mæta til að dæma æfingaleik og vera sá eini í húsinu sem er ekki á launum. Maðurinn sem mætir með flautuna er eini ólaunaði starfsmaðurinn sem kemur að leiknum, það er ansi sérstakt."
„Ég held að við þurfum líka að laða fleiri að í dómarastarfið og beita markvissri þjálfun á yngri dómara. Þetta er eins og með fótboltamann, þú hendir ekki bolta til hans og segir honum að mæta á meistaraflokksæfingu eftir sex ár. Það þarf þjálfara og leiðsögn," sagði Þorvaldur að lokum.
Sjá einnig:
Erlendur Eiríksson dómari ársins 2015
Gunnar Jarl Jónsson dómari ársins 2014
Garðar Örn Hinriksson dómari ársins 2013
Gunnar Jarl Jónsson dómari ársins 2012
Erlendur Eiríksson dómari ársins 2011
Athugasemdir