Guðný Björk Óðinsdóttir er gengin í raðir sænska félagsins Kristianstad frá Val en þetta staðfesti Elísabet Gunnarsdóttir þjálfari sænska félagsins við Fótbolta.net í dag. Guðný Björk gerir eins árs samning við Kristianstad.
Guðný sem er tvítug hefur leikið með Val síðan árið 2005 þar sem hún hefur oftast verið bakvörður. Hún var að finna sig vel í nýrri stöðu fremst á miðjunni á undirbúningstímabilinu og var dugleg að skora fyrir liðið þegar hún lenti í að slíta krossband í hné 15. apríl síðastliðinn.
Vegna þessa missti hún af allri síðustu leiktíð með liðinu en er óðum að komast í fyrra form að nýju og verður væntanlega í toppformi þegar sænska deildin hefst að nýju á næsta ári.
Hún lék 42 leiki með Val í deild og bikar og skoraði í þeim ellefu mörk á þeim þremur tímabilum sem hún lék með liðinu frá sumrinu 2005 er hún kom til félagsins frá Aftureldingu í Mosfellsbæ.
Hún á að baki 13 landsleiki fyrir Íslands hönd og afrekaði það á árstímabili að spila fyrir öll landslið Íslands.
Hún er annar leikmaðurinn sem fer frá Val í atvinnumennsku frá því tímabilinu lauk því áður hafði Guðbjörg Gunnarsdóttir farið til Djurgården en þær voru báðar frá keppni í sumar vegna meiðsla. Þá eru allar líkur á að Margrét Lára Viðarsdóttir semji við sænska félagið Linköping á næstu dögum.
Athugasemdir


