Fótbolti.net rifjaði fyrr í dag upp lag sem var samið eftir rifrildi Atla Eðvaldssonar og Páls Einarssonar þegar að þeir voru hjá Þrótti árið 2005. Sá sem samdi og söng lagið er Daníel Hjaltason, leikmaður Víkings R., en hann samdi lagið sem gjöf fyriir Atla.
,,Ég og Símon bróðir minn gerðum þetta. Ég samdi textann og síðan vorum við með bongó trommur, gítar, bassa og píanó," sagði Daníel við Fótbolta.net í dag.
,,Ég var að vinna með Atla Eðvaldssyni í Allianz og þá voru haldin litlu jólin þar. Við drógum um það hver ætti að vera leyni jólasveinn allra og ég dró Atla Eðvaldsson. Það átti að finna gjöf og ég ákvað að gera lag um hann."
,,Ég vildi ekki blása egóið hans of mikið upp þannig að ég ákvað að taka þetta mál fyrir. Þetta var bara nett djók sem hann átti að geta hlegið af en síðan fengu fleiri þetta á e-maili og þetta fór lengra en ég átti von á."
,,Það er svolítið diss á Palla Einars í laginu sem var ekki alveg tilgangurinn því að hann er fínn gaur. Þetta átti bara að vera eins fyndið og hægt var. Atla fannst þetta fyndið og við hlógum mikið af þessu á þessum jóladegi en hann fattaði ekki strax hver hafði gert þetta."
Daníel hefur sjálfur heyrt ýmsar aðrar sögur um það hverjir bjuggu lagið til en þó eru einhverjir sem vita að það var hann sem gerði það.
,,Það vita einhverjir um þetta. Ég hef heyrt alls konar sögur. Ég heyrði einhverntímann að Köttararnir hefðu gert þetta og ég heyrði líka að þetta hefðu verið einhverjir í MS sem hefðu gert þetta."
Daníel hefur sjálfur gefið út rapplög og hann útilokar ekki að gera fleiri lög tengd fótbolta í framtíðinni.
,,Það er spurning um að gera fótboltadisk um skemmtileg atvik í boltanum, ég skal pæla í því. Það er af nógu af taka eftir hvert sumar," sagði Daníel að lokum.
Smelltu hér til að sjá texta lagsins
Smelltu hér til að hlusta á lagið
Athugasemdir