
„Það er alltaf jafngaman að vinna titil. Mér fannst við spila frábæran leik í dag," sagði Ingvar Jónsson, markvörður Víkinga, eftir sigur gegn FH í úrslitaleik Mjólkurbikarsins.
Lestu um leikinn: FH 2 - 3 Víkingur R.
„Ég hafði litlar áhyggjur af þessu. Mér fannst þessi leikur svipaður og maður bjóst við. FH er með frábæra leikmenn innan hópsins þó það hafi gengið illa hjá þeim í sumar. Maður vissi að þeir myndu eiga sín augnablik og gætu verið hættulegir."
Ingvar ánægður með spilamennskuna hjá Víkingum en hefði viljað sjá liðið nýta sín færi betur.
Ingvar gerði sjálfsmark þegar FH jafnaði undir lokin. Það var frekar klaufalegt mark.
„Þetta var klaufalegt. Boltinn er að koma fyrir og rekst í tána á einhverjum, hann spinnast undir mig. Mér finnst við ekki hafa spilað nægilega mikið af mínútum í sumar þannig að ég vildi bæta 30 mínútum í viðbót í lappirnar á strákunum," sagði Ingvar léttur um markið.
Víkingar skoruðu snemma í framlengingunni og tryggðu sér sigurinn.
„Það var svo mikil orka í okkur að ég hafði eiginlega engar áhyggjur. Mér fannst FH-ingarnir orðnir miklu þreyttari. Ég vil hrósa FH, þeir voru frábærir líka."
Af hverju eru Víkingar svona mikið bikarlið?
„Ætli það sé ekki bara þjálfarinn? Hvernig hann leggur þetta upp; hann gírar menn vel upp sama hvort það sé á móti Haukum á Ásvöllum eða í bikarúrslitaleiknum. Hann lagði þennan leik mjög vel upp. Hann fær stemninguna í menn," sagði Ingvar um Arnar Gunnlaugsson, þjálfara Víkinga.
„Það verða einhver fagnaðarlæti en það eru bara fjórir dagar í næsta leik. Menn leyfa sér aðeins að fagna."
Allt viðtalið má sjá hér að ofan.
Athugasemdir