Gomes, Lookman og Kolo Muani orðaðir við Man Utd - Trossard fær launahækkun - Brownhill í ítalska boltann?
   fös 01. nóvember 2024 13:53
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Þarft ekki að hafa verið hestur til að vera knapi"
Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks.
Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik varð Íslandsmeistari í sumar.
Breiðablik varð Íslandsmeistari í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arrigo Sacchi, fyrrum stjóri AC Milan og ítalska landsliðsins.
Arrigo Sacchi, fyrrum stjóri AC Milan og ítalska landsliðsins.
Mynd: Getty Images
Páll Kristjánsson og Dóri stýrðu KV saman.
Páll Kristjánsson og Dóri stýrðu KV saman.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Dóri og Óskar Hrafn.
Dóri og Óskar Hrafn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Halldór Árnason varð Íslandsmeistari í annað sinn síðasta sunnudag, en í fyrsta sinn sem aðalþjálfari. Hann tók við sem aðalþjálfari Breiðabliks síðasta vetur og gerði liðið að meisturum í fyrstu tilraun.

Halldór á ekki stórkostlegan feril að baki sem leikmaður. Hann lék í yngri flokkum með KR og spilaði svo í meistaraflokki með Gróttu og KV. Hann hafði alltaf ástríðu fyrir fótbolta og hefur náð frábærum árangri sem þjálfari.

Halldór ræddi um leið sína í þjálfun í hlaðvarpi hér á Fótbolta.net í gær en eins og Arrigo Sacchi, einn mesti hugsuður í sögu fótboltans, sagði einu sinni, „þá þarftu ekki að hafa verið hestur til að vera knapi." Sacchi var magnaður þjálfari en átti engan leikmannaferil.

„Ég spilaði ekki í efstu deild né 1. deild, en ég gerði ekki annað en að spila fótbolta þangað til ég var 20 og eitthvað ára. Ég var í mjög öflugum árgangi í KR þar sem við vorum alltaf að spila til úrslita og að vinna titla," sagði Halldór í þættinum.

„Á elsta ári í 2. flokki var maður aðeins í kringum meistaraflokkinn en ég á ekki nema einn skráðan leik fyrir KR, í Reykjavíkurmótinu. Eftir að ég gekk upp 2003 þá var KR nýorðið Íslandsmeistari og með ansi sterkt lið. Ég sá ekki fram á að vera þar og ég fór í Gróttu. Ég hætti mjög snemma. Þetta er ekki merkilegur ferill en lífið hefur samt alltaf snúist um fótbolta."

„Ísland var töluvert á eftir öðrum löndum með það að ráða yngri þjálfara og líta aðeins á að það er ekki allt sem þú gerðir á leikmannaferlinum. Skandinavía og Þýskaland, það eru komin tíu ár síðan þessi lönd fóru í þessa átt og England líka núna. Þetta er þróun sem hefur átt sér stað í heiminum. Arrigo Sacchi sagði fyrir mörgum árum að þú þyrftir ekki að hafa verið hestur til að hafa verið góður knapi," sagði Halldór en hann segist aldrei hafa pælt í því, hann reyni bara að gera sitt besta á hverjum degi.

Hvernig leikmaður varstu?

„Ég held að ég hafi ekki farið aftur fyrir miðju fyrr en ég var rúmlega tvítugur. Síðasta tímabilið með KV var ég farinn að spila á miðjunni og kunni vel við mig þar. Maður var töluvert meira í boltanum. Ég spilaði mjög framarlega og eiginlega alltaf upp á topp. Ég var mjög sókndjarfur leikmaður."

Tilviljun hvernig þjálfaraferillinn byrjaði
Halldór sagði frá því í þættinum að þjálfaraferillinn hefði byrjað fyrir tilviljun.

„Það var algjör tilviljun að ég fór að þjálfa," segir hann. „Það var þannig að 2007 var ég að spila með Gróttu í neðri deildum og góður vinur minn var að þjálfa 3. flokk KR. Bróðir minn var að spila. Ég var einhvern veginn plataður í að vera farastjóri í æfingaferð til Bolton. Ég var svo orðinn aðstoðarþjálfari því aðstoðarþjálfarinn komst ekki með. Félaginn minn, þjálfarinn, veiktist svo í þrjár vikur. Á fyrstu æfingunni minni var ég einn með 3. flokk KR og ég hafði aldrei þjálfað áður."

Þjálfarabakterían var fljót að koma. „Ég hef aldrei snúið til baka. Ég hringdi í Ása Haralds og sagðist ætla í KV. Ég fór að þjálfa og tók þetta alla leið frá fyrsta degi. Ég hef aldrei gert neitt annað. Ég hef alltaf pælt rosa mikið í fótbolta. Það þurfti ekki margar æfingar og leiki til að sannfæra mig um að þetta væri það sem ég vildi gera."

Dóri tók við þjálfun KV og stýrði liðinu upp í næst efstu deild ásamt Páli Kristjánssyni, núverandi formanni knattspyrnudeildar KR.

Vinátta og samstarf sem ég mun alltaf virða mikið
Áður en hann tók við Breiðabliki, þá starfaði Halldór sem aðstoðarþjálfari Óskars Hrafns Þorvaldssonar í sex ár; fyrst hjá Gróttu og svo hjá Blikum. Það samstarf var mjög farsælt og kenndi Dóra mikið.

„Óskar var minn fyrsti þjálfari í fótbolta þegar ég var í 7. flokki. Þá voru Geir Þorsteins og Óskar að þjálfa 7. flokk KR. Svo lágu leiðir okkar saman þegar ég var á yngra ári í 3. flokki og þá kemur Óskar heim úr atvinnumennsku um mitt sumar. Svo þjálfar Óskar mig öll þrjú árin í 2. flokki KR þar sem við endum á að vera bikarmeistarar á elsta ári. Hann hættir að þjálfa í tíu eða ellefu ár, fer í fjölmiðla, flytur erlendis og annað."

„Haustið 2014 er ég yfirþjálfari hjá KR og að þjálfa 2. flokk. Steini Halldórs var með mér en hann tekur svo við kvennaliði Breiðabliks. Óskar tekur þá þjálfaraflautuna af hillunni og við þjálfum saman 2. flokk KR. Við áttum frábært samstarf þar strax. Eftir það tímabil fer ég í Stjörnuna í tvö ár, en Óskar fer svo í Gróttu að þjálfa yngri flokka. Hann heyrir svo í mér um mitt sumar 2017 og við spjöllum saman um framtíðina. Um haustið verða þjálfarabreytingar í Gróttu og hann biður mig um að koma með sér í það verkefni."

„Við eigum saman tvö frábær ár í Gróttu og fjögur ár í Breiðabliki," segir Halldór.

Hann tekur mikið frá tíma sínum með Óskari. „Það hafa margar hugmyndir fæðst í okkar í samstarfi og samvinnu. Við höfum átt frábæra vináttu og samstarf sem ég mun alltaf virða mikið. Hann er ofboðslega drífandi og metnaðarfullur, og auðvelt að hrífast með honum."

Óskar er í dag þjálfari KR og munu þeir mætast næsta sumar í Bestu deildinni.

Hægt er að hlusta á allt viðtalið í spilaranum hér fyrir neðan.
Halldór Árnason - Íslandsmeistari í fyrstu tilraun
Athugasemdir
banner
banner