Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   lau 02. mars 2024 14:28
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Búlgararnir steinhissa og pirraðir á reglunni - „Góð staðfesting á að ég sé mjög góður leikmaður"
21 árs sóknarsinnaður miðjumaður sem á að baki fjöldan allan af yngri landsleikjum og þrjá A-landsleiki.
21 árs sóknarsinnaður miðjumaður sem á að baki fjöldan allan af yngri landsleikjum og þrjá A-landsleiki.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Íslands- og bikarmeistari í fyrra. Titlarnir með Víkingi eru alls þrír.
Íslands- og bikarmeistari í fyrra. Titlarnir með Víkingi eru alls þrír.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á síðasta tímabili skoraði hann tíu mörk í deildinni og eitt í bikarnum.
Á síðasta tímabili skoraði hann tíu mörk í deildinni og eitt í bikarnum.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Danijel er mjög skapandi leikmaður sem er góður í því að brjóta upp leiki með laglegum hreyfingum.
Danijel er mjög skapandi leikmaður sem er góður í því að brjóta upp leiki með laglegum hreyfingum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Danijel lék með Breiðabliki í yngri flokkum áður en hann fór til Midtjylland þar sem hann var þar til hann kom aftur til Íslands og samdi við Víking.
Danijel lék með Breiðabliki í yngri flokkum áður en hann fór til Midtjylland þar sem hann var þar til hann kom aftur til Íslands og samdi við Víking.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hefur skemmt áhorfendum í Víkinni í eitt og hálft ár.
Hefur skemmt áhorfendum í Víkinni í eitt og hálft ár.
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Ludogorets, stærsta og besta lið Búlgaríu, bauð í Danijel Dejan Djuric á dögunum. Tilboðið nægði til að heilla Víkinga en ekkert varð af skiptunum þar sem Danijel telst vera erlendur leikmaður í Búlgaríu þrátt fyrir að vera með búlgarskan ríkisborgararétt.

Félagið var þegar búið að nýta sinn kvóta erlendra leikmanna og því var ekki hægt að fá Víkinginn til félagsins. „Þetta var mjög skrítið og ég skil þetta sjálfur ekki alveg 100 prósent. Þetta var eitthvað vegabréfavesen," sagði Kári Árnason, yfirmaður fótboltamála hjá Víkingi, við Fótbolta.net í gær. „Þetta var mjög gott tilboð og okkur fannst það sanngjarnt. Þetta er risastórt félag og þetta hefði verið flott fyrir hann, en það gekk ekki," bætti hann við.

Fótbolti.net ræddi við Danijel og spurði hann út í Ludogorets og tilboðið.

„Ludogorets er auðvitað mjög stór klúbbur sem er búinn að festa sig í sessi sem klúbbur sem spilar oftast í riðlakeppni í Evrópu. Ég frétti af þessum áhuga í byrjun vikunnar og hlutirnir gerðust hratt vegna þess að glugginn þeirra var að fara loka og það þurfti að vinna hratt, og auðvitað var maður spenntur," sagði Danijel. En hvert er hans uppáhalds félag í Búlgaríu?

„Ég held að Ludogorets sé bara mitt uppáhalds lið í Búlgaríu, en það er samt ekki þannig að ég hafi fylgst rosalega mikið með boltanum þar. Ég hef samt sem áður farið á Ludogorets leik, gerði það þegar ég var yngri."

Hefði þurft að hafa spilað áður í Búlgaríu
Hvað kemur í veg fyrir að þessi skipti gangi í gegn?

„Þessi blessaða regla er einhver gömul regla sem er mjög skrítin, og ef ég á að vera alveg hreinskilinn skil ég hana ekki alveg fullkomlega sjálfur. Þetta var þannig að þeir ætluðu að fá mig, vissu að ég væri með tvöfaldan ríkisborgararétt og ætti því ekki að taka útlendinga pláss. En svo fékk ég að vita að reglan væri sú að ég hefði þurft að hafa spilað áður fyrr í Búlgaríu til að geta talist Búlgari en ekki útlendingur, sem er mjög skrítið en svona er þetta stundum. Þetta var allavega það sem ég fékk að heyra."

Danijel var búinn að heyra af viðbrögðum Ludogorets við reglunni.

„Þeir voru líka steinhissa og pirraðir á þessari reglu og höfðu ekki hugmynd um hana og fannst það virkilega skrítið að þetta væri bara regla yfir höfuð og gerðu allt til að komast framhjá henni en það tókst ekki."

Veistu eitthvað með framhaldið af þeirra hlið? Ætla þeir að reyna aftur seinna?

„Ég veit ekki hvort þeir munu reyna aftur eða ekki. Það er ekki eitthvað sem ég er að pæla í akkúrat núna. Núna er ég með alla einbeitingu á Víking og get ég ekki beðið eftir að Besta deildin byrji aftur og að ég geti sýnt í hvað mér býr."

Vakti áhugi þeirra á þér athygli í búlgörskum fjölmiðlum?

„Þetta hefur verið mikið í fréttunum í Búlgaríu, bæði á netinu og í sjónvarpinu eins og gengur og gerist ef besta liðið í Búlgaríu er að reyna að fá leikmann."

Ludogorets komst upp í efstu deild árið 2011 og hefur unnið deildina öll tímabilin síðan. Liðið hefur tvisvar farið í riðlakeppni Meistaradeildarinnar og sjö sinnum í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Síðast var liðið í riðlakeppni Meistaradeildarinnar tímabilið 2016/17. Á stigalista UEFA er Ludogorets í 68. sæti en Víkingur er í 310. sæti.

„Að lið sem var í Meistaradeildini fyrir ekki svo mörgum árum vilji fá mig er auðvitað bara góð staðfesting á að ég sé mjög góður leikmaður sem er alltaf gott. Þótt maður viti það sjálfur þá er fínt að fá af og til staðfestingu á því."

En hvernig kom það upp að Ludogorets fór að skoða að fá Danijel?

„Ég er með mjög góðan umboðsmann sem er með góðar tengingar. Hann sá að það var möguleiki áð því að leiðin til Búlgaríu væri ef til vill ekki svo löng þar sem ég er Búlgari.m Þannig það var umboðsmanninum mínum að þakka að ég komst á radarinn hjá Ludogorets."

Hvernig lítur framhaldið út?

„Framhaldið lítur bara mjög vel út, mér var allavega sagt við mig að þeir væru að fara breyta þessari reglu núna á ársþinginu hjá búlgarska sambandinu sem þýðir að þessar dyr gætu opnast aftur eða jafnvel einhverjar aðrar, maður veit aldrei. Eins og staðan er núna er fullur fókus á Víking."

Veit ekki hvort hann myndi velja
Fyrir rúmu ári síðan ræddi Danijel við Fótbolta.net um tengingu sína við Búlgaríu. Þá var hann á leið í janúarverkefni með A-landsliðinu en hann á að baki þrjá A-landsleiki. Móðir Danijels er frá Búlgaríu og hann er gjaldgengur í búlgarska landsliðið. Á þeim tíma kölluðu einhverjir fjölmiðlamenn þar í landi eftir því að hann yrði valinn í búlgarska landsliðið en ekkert varð að því.
En hvernig er staðan í dag? Hefur einhver þróun verið á því?

„Það hefur ekkert komið frá búlgarska sambandinu um að spila fyrir þá. Eins og ég hef sagt áður þá er ég mjög stoltur að vera frá Búlgaríu, það er landið þar sem ég er fæddur og ég á stóra fjölskyldu þar. Ég er samt sem áður einnig alltaf stoltur að spila fyrir Ísland og finnst mér erfið spurning að svara ef spurningin er hvort ég myndi velja ef báðir valmöguleikarnir eru í boði."

Danijel er sóknarsinnaður miðjumaður sem leikið hefur með Víkingi í eitt og hálft tímabil, kom til félagsins frá danska félaginu Midtjylland um mitt sumar 2022. Á síðasta tímabili skoraði hann tíu mörk í Bestu deildinni og lagði upp fimm. Hann skoraði eitt mark í Mjólkurbikarnum og lagði upp þrjú.

Tekið mörg stökk á undirbúningstímabilinu
Í viðtalinu var Danijel einnig spurður út í atvinnumennsku drauma. Hann sagðist vilja vinna fleiri titla með Víkingi áður en hann færi út, kveðja félagið með titli eða titlum. Hann vann tvo titla í fyrra eftir að hafa orðið bikarmeistari haustið 2022. Er hann með einhverja drauma um að það komi annað tilboð að utan fyrir Íslandsmót?

„Það gæti alveg gerst að eitthvað komi upp fyrir mót og eins og ég hef alltaf sagt þá langar mig að spila erlendis, það hefur alltaf verið minn draumur. En það er ekkert sem ég er að pæla í ég er bara mjög spenntur fyrir þessu tímabili í Bestu eftir þennan langa og dimma vetur."

„Næsta tímabil með Víkingi verður mjög spennandi og verður geggjað að verja titlana tvo og reyna að komast langt í Evrópu. Mér finnst eins og ég sé búin að taka mörg stökk upp á við núna á þessu undirbúningstímabili og get ég ekki beðið eftir að sýna öllum hvað ég get,"
sagði Danijel að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner