„Fyrsti leikur er alltaf erfiður og þarna voru margar stelpur að stíga sín fyrstu skref í efstu deild. Við spiluðum á móti hörkuliði og þetta var hörkuleikur. Það er gott að fyrsta leik sé lokið en við ætluðum okkur betri úrslit,“ sagði Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Keflavíkur, eftir 2-1 tap gegn Fylki í nýliðaslag Pepsi Max-deildarinnar.
Lestu um leikinn: Fylkir 2 - 1 Keflavík
„Við vorum að þjarma að þeim og reyna allt til að ná jöfnunarmarki. Þetta eru ungar stelpur að stíga sín fyrstu skref og þær voru svolítið hræddar við að halda bolta og það sást alveg að það var smá skrekkur í þeim en hann er vonandi farinn núna,“ sagði Gunnar en Keflavíkurliðið hefur verið í basli gegn Fylki í undanförnum leikjum.
„Fylkiskonur hafa reynst okkur erfiðar. Þetta er fjórði leikurinn sem við töpum á móti þeim þannig að þetta er lið sem hefur reynst okkur erfitt.“
Þrátt fyrir tapið er Gunnar brattur og bjartsýnn fyrir framhaldinu en nánar er rætt við hann í spilaranum hér að ofan. Þar segir hann meðal annars frá því hvernig kom til þess að Keflvíkingar fengju til sín landsliðsmarkvörð frá Aserbaídsjan.
Athugasemdir