Bayern München gæti gert óvænt tilboð í Rashford - Liverpool hafnaði fyrirspurn Bayern um Díaz og ætlar ekki að selja hann
   mið 02. júlí 2025 17:57
Brynjar Ingi Erluson
Naumt tap gegn Finnum í opnunarleiknum
Icelandair
EM KVK 2025
Ísland tapaði opnunarleiknum
Ísland tapaði opnunarleiknum
Mynd: EPA
Karólína Lea í baráttunni gegn Finnum
Karólína Lea í baráttunni gegn Finnum
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Ísland 0 - 1 Finnland
0-1 Katariina Kosola ('70 )
Rautt spjald: Hildur Antonsdóttir, Ísland ('58) Lestu um leikinn

Íslenska kvennalandsliðið tapaði fyrir Finnlandi, 1-0, í opnunarleik Evrópumótsins á Stockhorn Arena í Thun í Sviss í dag.

Fyrri hálfleikurinn fer ekki í neinar sögubækur og var heilt yfir fremur slakur þó íslenska liðið hafi vissulega fengið nokkrar ágætis tilraunir þá var klárlega svigrúm til bætinga.

Margir langir boltar voru sendir fram völlinn og oft enginn til að taka á móti þeim og þá vantaði upp á nákvæmni í sendingum. Finnar áttu betri færi fyrsta hálftímann en Cecilía Rán Rúnarsdóttir sannaði það af hverju hún var valin besti markvörður ítölsku deildarinnar á nýafstöðnu tímabili.

Besta varsla hennar kom á 17. mínútu er hún varði öflugt skot Katariinu Kosola aftur fyrir endamörk.

Tvö bestu færi Íslands í fyrri hálfleiknum komu í gegnum Sveindísi Jane Jónsdóttur. Hún átti fyrst innkast inn á nærstöng sem Glódís Perla Viggósdóttir skallaði aftur fyrir og náði markvörður Finna rétt svo að slæma hendinni í boltann.

Sveindís lagði síðan upp síðara færið með laglegri sendingu á fjær á Söndru Maríu Jessen en Finnar komust fyrir færið á síðustu stundu.

Í hálfleik neyddist Þorsteinn Halldórsson til að gera ein breytingu á liðinu. Glódís Perla, fyrirliði landsliðsins, hafði verið að glíma við eitthvað í leiknum og gat ekki haldið leik áfram, en í lýsingu RÚV kom fram að ekki væri um meiðsli að ræða heldur heilsufarslegt vandamál.

Ísland byrjaði seinni hálfleikinn ágætlega og voru stelpurnar nálægt því að taka forystuna eftir innkast Sveindísar. Boltinn datt fyrir Ingibjörgu Sigurðardóttur sem reyndi skot sem fór í varnarmann og út á Alexöndru Jóhannsdóttur sem hamraði honum í andlit Emmu Koivisto.

Aðeins mínútu síðar fékk Hildur Antonsdóttir að líta rauða spjaldið sem mörgum fannst stórundarlegt. Þorsteinn var gríðarlega ósáttur með þessa ákvörðun og allir furðulostnir, en nokkrum mínútum síðar kom betri skýring á spjaldinu en Hildur steig ofan á leikmann Finna og fékk því sitt annað gula spjald.

Íslenska liðið átti ágætis kafla einum leikmanni færri og var farið að ógna Finnum, en þá kom rennandi blaut tuska í andlitið er Kosola skoraði sigurmarkið.

Hún fékk boltann vinstra megin í teignum, alveg alein áður en hún stýrði boltanum efst í hægra hornið. Cecilía var í boltanum, en það var ekki nóg.

Fimmtán mínútum fyrir leikslok fékk Sveindís frábært færi til að jafna metin. Hún stakk sér inn fyrir vinstra megin og var komin í geggjaða skotstöðu, en setti boltann framhjá markinu.

Þrátt fyrir mikla áræðni og seiglu tókst íslenska liðinu ekki að ná inn jöfnunarmarki og lokatölur 1-0 fyrir Finnum.

Svekkjandi tap og mikil blóðtaka í opnunarleiknum, en næst mætir Ísland gestgjöfunum í Sviss á sunnudag.
Athugasemdir
banner