Liverpool í lykilstöðu til að fá Rodrygo frá Real Madrid - Brentford hafnaði fyrsta tilboði Newcastle í Wissa
   mið 23. júlí 2025 14:43
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Dóri Árna: Njótið íslensku deildarinnar áður en við förum þangað
'Ég eiginlega nenni ekki að horfa á fótbolta lengur, fótbolti með VAR er fótbolti sem ég nenni ekki að horfa á'
'Ég eiginlega nenni ekki að horfa á fótbolta lengur, fótbolti með VAR er fótbolti sem ég nenni ekki að horfa á'
Mynd: EPA
Staðan var 1-1 í stuttan tíma, en Blikarnir litu mjög vel út á þeim tímapunkti.
Staðan var 1-1 í stuttan tíma, en Blikarnir litu mjög vel út á þeim tímapunkti.
Mynd: EPA
Höskuldur skoraði sitt ellefta Evrópumark á ferlinum í gær. Hann, Atli Guðnason og Nikolaj Hansen eru (samkvæmt Víði Sigurðssyni á mbl) markahæstu leikmenn í sögu íslenskra liða í Evrópu.
Höskuldur skoraði sitt ellefta Evrópumark á ferlinum í gær. Hann, Atli Guðnason og Nikolaj Hansen eru (samkvæmt Víði Sigurðssyni á mbl) markahæstu leikmenn í sögu íslenskra liða í Evrópu.
Mynd: EPA
'Það voru 25 þúsund manns á lokuðum leikvangi, allir að öskra. Þetta var ekki þannig að þú gast kallað á alla leikmennina að gera hitt og þetta.'
'Það voru 25 þúsund manns á lokuðum leikvangi, allir að öskra. Þetta var ekki þannig að þú gast kallað á alla leikmennina að gera hitt og þetta.'
Mynd: EPA
'Þegar þú ert búinn að hægja á þessu og frysta þetta á réttu augnabliki, þá er örugglega hægt að réttlæta þetta allt, en það var enginn að kalla eftir rauðu spjaldi á Viktor Örn'
'Þegar þú ert búinn að hægja á þessu og frysta þetta á réttu augnabliki, þá er örugglega hægt að réttlæta þetta allt, en það var enginn að kalla eftir rauðu spjaldi á Viktor Örn'
Mynd: EPA
'Menn hafa bara gert það upp og haldið áfram'
'Menn hafa bara gert það upp og haldið áfram'
Mynd: EPA
Það voru einhverjir Blikar á vellinum í gær.
Það voru einhverjir Blikar á vellinum í gær.
Mynd: EPA
Úr leik Breiðabliks og Zrinjski á Kópavogsvelli 2023. Það einvígi endaði með 6-3 sigri Zrinjski.
Úr leik Breiðabliks og Zrinjski á Kópavogsvelli 2023. Það einvígi endaði með 6-3 sigri Zrinjski.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
En Breiðablik vann svo Struga í kjölfarið og komst í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar.
En Breiðablik vann svo Struga í kjölfarið og komst í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
'Er einhver í alvörunni sem vill þetta?'
'Er einhver í alvörunni sem vill þetta?'
Mynd: EPA
„Það eru tvær leiðir til að gera leikinn upp. Við fáum auðvitað alltof mörg mörk á okkur, eigum aldrei að fá sjö mörk á okkur, ekki á móti neinu liði, sama hvort við erum 9-10 eða 11 inn á. Það er hægt að gera leikinn upp með einhverjum stórum orðum, tala um afhroð eða flengingu, afgreiða þetta þannig. Og það er allt í lagi að gera það," segir Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, eftir 7-1 tap liðsins gegn Lech Poznan í 2. umferð forkeppninnar í Meistaradeildinni í gær.

Staðan var jöfn, 1-1, eftir hálftíma leik en þá komu tvö stór atvik; rautt spjald á Viktor Örn Margeirsson og vítaspyrna dæmd á Arnór Gauta Jónsson. Lech komst yfir og á næsta korterinu bættu pólsku meistararnir við þremur mörkum.

Lestu um leikinn: Lech Poznan 7 -  1 Breiðablik

„Það er líka hægt að gera leikinn upp eins og við gerðum hann upp. Við brjótum hann upp í þrjá hluta; fyrsta hálftímann þar sem við erum 11 á móti 11, svo korterið eftir að Viktor fær rautt og svo seinni hálfleikinn. Ef það á að tala út frá fótboltanum þá verður að gera það þannig, það er ekki hægt að horfa í pressu eða hversu mikið við erum með boltann einum færri í rúman klukkutíma á móti Lech Poznan," segir Dóri.

Fyrsti hálftíminn
„Fyrsti hálftíminn var mjög fínn, það var hrollur í okkur fyrstu tíu mínúturnar. Við eiginlega vissum að þeir myndu brjóta upp það sem þeir hafa verið að gera í síðustu leikjum. Þeir hafa verið mjög fastir í því hvernig þeir hafa spilað, en það hafði ekki gengið vel í þremur síðustu leikjum; töpuðu í deildinni á föstudaginn 4-1, töpuðu gegn Legia í meistarar meistaranna og síðasta æfingaleiknum fyri mót. Af því að við verjumst eins og við verjumst, maður á móti manni, þá vissum við að þeir myndu breyta til og að við þyrftum að vera fljótir að telja inni í leiknum, en við vissum ekki hvernig þeir myndu breyta til. Mér fannst vera smá ströggl í talningunni, hvernig við hreyfðum okkur. Það var ekki frábært að fá á sig mark á fjórðu mínútu eftir fast leikatriði; frábær hornspyrna, eitthvað sem getur gerst."

„Mér fannst okkur líða ágætlega eftir erfiðar fyrstu tíu. Þeir voru ekki að ógna markinu okkar. Þegar við fórum að halda betur í boltann sáum við að það voru heilmikil tækifæri til að spila. Við eigum svo frábæra sókn áður en við fáum vítið og jöfnum leikinn."

„Í þennan mjög stutta tíma sem staðan er 1-1 þá leit þetta vel út. Það var alvöru panikk á bekknum hjá þeim, við orðnir miklu meiri þátttakendur í leiknum. Við vorum fínir á þessum fyrsta kafla. Skjálftinn farinn úr okkur, með sjálfstraust og staðan jöfn. Svo bara breytir rauða spjaldið öllu."


Næsta korter
„Ég nenni eiginlega ekki að tala um dómgæslu, þessi atvik, allt þetta, en ef við erum í alvörunni þar, að þetta sé það sem leikurinn snýst um, atvik sem fjórir menn sjá með augunum og taka ákvörðun um... að menn inn í skúr frysta myndina í eina sekúndu þar sem þeir finna einhverja snertingu, hægja á því tólffalt, týna til einhver brot.... þá bara plís, njótið íslensku deildarinnar áður en við förum þangað. Það er ástæða fyrir því að allar skandinavísku deildirnar vilja losna við VAR. Þegar þú ert búinn að hægja á þessu og frysta þetta á réttu augnabliki, þá er örugglega hægt að réttlæta þetta allt, en það var enginn að kalla eftir rauðu spjaldi á Viktor Örn. Gauti snertir treyjuna á honum í hálft sekúndubrot. Svona til gamans þá fórum við í gegnum öll föst leikatriði það sem eftir var af leiknum; aukaspyrnur og horn hjá báðum liðum. Það hefðu sennilega átt að vera 22 víti í leiknum, þetta var bara fíflagangur."

„En við eigum að vita betur. Við fáum rautt spjald eftir VAR, aukaspyrna í kjölfarið og þá er VAR-víti á okkur. Við þurfum að vera klókari en þetta, þurfum að læra að spila með VAR. Maðurinn sem Gauti snertir hefur vit á því að grýta sér niður til að VAR skoði þetta. Ef þú ferð ekki niður þá skoðar VAR ekki neitt. Það er rosalegur lærdómur í því, því það er VAR í öllum leikjum sem eftir eru. Þetta eru tvö VAR augnablik á einhverjum tveimur sekúndum, leikurinn stopp þess á milli."

„Það breytist mjög mikið, en engu að síður, 2-1 eftir vítið, við manni færri og nokkrar mínútur í hálfleik. Við verðum að gera betur á þeim kafla, við getum ekki misst 2-1 í 5-1. 2-1 í hálfleik hefði verið verkefni, að reyna verja það og fara með þá stöðu heim í seinni leikinn."

„Þrátt fyrir að skilaboðin inn á hafi verið að harka út hálfleikinn, förum í 4-4-1, getum ekki farið maður á mann, þá einhvern veginn ætluðu menn að svara fyrir þetta og jafna leikinn aftur. Það svo springur í andlitið á okkur, illilega."


Seinni hálfleikurinn
„Það er svo þriðji parturinn af leiknum, förum inn í seinni hálfleikinn til þess að hleypa þessu ekki upp í eitthvað rugl. Það leit lengi vel út fyrir að enda 5-1, sem eru ömurleg úrslit, en svo bara gerist það sem gerist."

„Langskot sem endar inni í markinu, hef ekki séð það aftur, og svo er þetta víti á Aron sem ég er ekki búinn að sjá aftur, en mér fannst það skrítið."

„Það er eiginlega fáránlegt að við fáum á okkur þrjú víti og í öllum tilvikum er ekkert að gerast. Í tveimur tilvikum er boltinn farinn út af; Gauti grípur í mann sem er ekki nálægt neinu 'actioni', þeir fá frían skalla frá öðrum manni sem skallar yfir. Aron og leikmaður hjá þeim hlaupa saman þegar boltinn er farinn út af. Annað vítið var svo fyrirgjöf í hendina á Valla sem er hendi, en boltinn er samt ekki á leiðinni á neinn. Þetta eru þrjú víti á augnablikum þar sem ekki neinn skapandi hlutur að gerast, það er pirrandi."


Hefði átt að setja Damir strax inn á?
Það er mjög auðvelt að spyrja sig eftir á af hverju Damir Muminovic kom ekki inn á þegar Viktor Örn fékk reisupassann. Er einhver eftirsjá hjá Dóra með það?

„Við köllum í Damir, hann var þá ekki búinn að hita upp, er ískaldur. Skipting á 36. mínútu, það eyðist skiptingarstopp í það, en það eyðist ekki stopp ef þú gerir það í hálfleik. Ef það hefði gengið að vera 2-1 undir í hálfleik, þá hefði það verið snilld og ótrúlega snilld. Kannski hefði staðan verið 7-1, eða við 2-3 yfir ef Damir hefði komið inn á, maður veit það ekki. Það þýðir ekki að hafa neina eftirsjá, þú tekur bara ákvörðun og stendur og fellur með henni."

„Það skipti engu máli hver var í hafsent, ef við ætluðum að hlaupa út um allan völl einum færri, hver í sínu horni að reyna redda einhverju. Við hefðum getað verið með John Terry og Ricardo Carvalho í hafsent, það hefði ekki skipt máli."


Ósáttur við leikmennina
Dóri talaði um að skilaboðin inn á hefðu verið að harka út síðasta korterið í fyrri hálfleik. Ertu ósáttur við leikmennina að fara og reyna svara þessu, reyna jafna í 2-2?

„Já, ég er það. En það voru allir að gera sitt besta, taka ákvarðanir sem þeir héldu að væru réttar. Það voru 25 þúsund manns á lokuðum leikvangi, allir að öskra. Þetta var ekki þannig að þú gast kallað á alla leikmennina að gera hitt og þetta. En við vorum búnir að koma inn á það fyrir fram hvað gæti gerst í leiknum. Þetta var klárlega ekki uppleggið, en mönnum hefur bara liðið vel í 1-1, það koma tvö högg og ríkt í mönnum að fara sækja eitthvað til baka. En á móti svona liði, á svona velli, þá þarf stundum bara að harka."

Vill ekki sjá VAR
Út frá orðum þínum, er sanngjarnt að segja að þú myndir ekki styðja þá hugmynd að fá VAR í íslenska boltann?

„Ég vil bara ekki sjá VAR í fótbolta, algjörlega burtséð frá þessum leik. Ég eiginlega nenni ekki að horfa á fótbolta lengur, fótbolti með VAR er fótbolti sem ég nenni ekki að horfa á. Ákvarðanirnar eru jafn umdeildar, þetta sker ekki einu sinni út um vafaatriði. Þetta setur dóma til að vera í sviðsljósinu, snýst allt um þá sem mér finnst skrítið. Þú vilt bara horfa á fótbolta, og dómararnir eru hluti af leiknum."

„Einhvers konar VAR útfærsla þar sem einhverjir tveir menn eru með skjá fyrir framan sig, einhver ver boltann á línunni með hendi, þá fengi dómarinn bara skilaboð í eyrað að þá væri hendi, það væri fínt. En að vera stoppa leiki í 5-7 mínútur, fara draga strik hvort að handarkrikinn eða táin sé einhvers staðar, eða hvort einhver togaði í sumum hornum en örðum ekki, er einhver í alvörunni sem vill þetta? Hvernig bætir þetta leikinn? Eins og ég segi þá er ástæða fyrir því að allar deildir í Skandinavíu vilja losna við þetta. Þetta hefur ekki gert neitt til að hjálpa íþróttinni, bara þveröfugt, tekur allt þetta mannlega; tilfinningar og allt það góða úr honum."

„Þetta hljómar ekkert eðlilega illa núna, eftir þennan leik í gær, en ég hefði sagt það sama við þig fyrir viku síðan."


Hefur ekki áhyggjur af framhaldinu
Hefur Dóri áhyggjur af því að 7-1 tap leggist mögulega á sálina á mönnum, einhverjar áhyggjur af næsta leik?

„Nei, ég hef alls ekki áhyggjur af því. Þetta er alls ekki í fyrsta skiptið sem við fáum mörg mörk á okkur í útivöllum í Evrópu. Þó að hópurinn sé mikið breyttur, þá eru margir sem hafa upplifað það, menn hafa bara gert það upp og haldið áfram."

Farnir að horfa í einvígið gegn Zrinjski
Það eru 90 mínútur eftir af einvíginu, en er þjálfarinn farinn að spá í Zinjski Mostar, næsta andstæðingi, sem verður í 3. umferð forkeppninnar í Evrópudeildinni, nema eitthvað ótrúlegt gerist.

„Einbeitingin núna er á næsta deildarleik, mjög mikilvægur leikur. Við ætlum að spila Poznan leikinn heima, gera það vel og stilla upp góðu liði og allt það. En í ljósi þess hvernig okkar leikur fór, og í ljósi þess að þeir (Zrinjski) tapaði 4-0, þá auðvitað höfum við farið í að hugsa um hvernig við ferðumst þangað og svoleiðis."

„Við erum að fara spila 7. ágúst, tímabilið 2023 spiluðum við 10. ágúst við sama lið í Bosníu. Þá voru þeir einmitt að koma á móti tap viðureign á móti Slovan Bratislava og við nýbúnir að fá á okkur sex mörk á 18 mínútum við FCK, eftir að hafa spilað gjörsamlega frábæran fótbolta í hálftíma. Það eru ákveðin líkindi með þessu. Það eru margir í kringum þetta sem voru með okkur fyrir tveimur árum, það endaði vel. Við erum farnir að horfa í það einvígi."


Ætla að taka seinni leiknum alvarlega
Verandi sex mörkum undir, sérðu það fyrir þér núna viku fyrir leik að liðsvalið muni litast af stöðunni í einvíginu?

„Við fórum í gegnum tvo Egnatia leiki og Vestra leikinn á 15 byrjunarliðsmönnum. Það verða breytingar fyrir leikinn gegn KR og klárlega aftur breytingar fyrir seinni leikinn. Þeir sem komu inn á í gær voru Damir, Óli Valur, Aron Bjarna, Kristófer Ingi og Kiddi Steindórs, allt hrikalega góðir og mikilvægir leikmenn sem eru hluti af kjarnanum. Þar fyrir utan eru Davíð Ingvars og Andri Yeoman, sem eru ekki alveg tilbúnir en vonandi styttist í þá. Breiddin er mjög mikil og þó að það verði einhverjar breytingar, þá er það ekki af því að við séum að kasta þessu frá okkur eða ætlum ekki að taka leikinn alvarlega, alls ekki," segir Dóri.

Athugasemdir
banner