Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   sun 03. mars 2024 17:33
Brynjar Ingi Erluson
England: Foden tók málin í sínar hendur - Man Utd ellefu stigum frá Meistaradeildarsæti
Phil Foden skoraði tvö fyrir Man City
Phil Foden skoraði tvö fyrir Man City
Mynd: Getty Images
Marcus Rashford skoraði stórbrotið mark í byrjun leiks
Marcus Rashford skoraði stórbrotið mark í byrjun leiks
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Manchester City 3 - 1 Manchester Utd
0-1 Marcus Rashford ('8 )
1-1 Phil Foden ('56 )
2-1 Phil Foden ('80 )
3-1 Erling Haland ('90 )

Englandsmeistarar Manchester City unnu 3-1 endurkomusigur á nágrönnum sínum í Manchester United í 27. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á Etihad í dag.

Fyrir leikinn var Man City talið sigurstranglegra. Eitt besta lið heims, gegn sveiflukenndu liði United, sem er í baráttu um að komast í Meistaradeild.

Það kom því verulega á óvart þegar United tók forystuna á 8. mínútu en það mark var í heimsklassa. Bruno Fernandes, fyrirliði United, sá um undirbúninginn. Langur bolti kom fram völlinn og náði Bruno að taka á móti honum, skýla boltanum áður en hann lagði hann út á Marcus Rashford sem þrumaði honum í slá og inn. Eitt af mörkum tímabilsins.

Man City opnaði sig aðeins meira eftir það og pressaði hátt upp á velli. Phil Foden var oft þeirra hættulegasta vopn og átti það eftir að sýna sig betur í síðari hálfleiknum.

Norðmaðurinn Erling Braut Haaland skoraði fimm mörk í vikunni, en klúðraði fyrir opnu marki undir lok hálfleiksins. Hálf ótrúlegt hvernig hann fór að því, en boltinn yfir markið.

Man Utd gat verið nokkuð ánægt með fyrri hálfleikinn en sú ánægja entist ekki út leikinn.

Snemma í síðari hálfleik jafnaði Foden með draumamarki fyrir utan teig. Rodri lagði boltann á Foden, sem ákvað að rekja boltann aðeins áður en hann hamraði honum með vinstri efst upp í vinstra hornið.

Þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum skoraði hann annað mark sitt eftir gott þríhyrningsspil með Julian Alvarez. Foden var kominn inn vinstra megin í teiginn og setti hann síðan neðst í hægra hornið.

Foden tók málin í sínar hendur eins og hann hefur áður gert gegn United. Magnaður leikmaður í alla staði og einn af þeim allra mikilvægustu í liði Man City. Þó má ekki taka neitt frá Bernardo Silva sem var í sérflokki í síðari hálfleiknum.

Haaland tókst að bæta upp fyrir svakalega klúður sitt með því að gera þriðja mark City undir lok leiks. Rodri vann boltann af Sofyan Amrabat við vítateiginn, lagði hann inn á Haaland sem átti ekki miklum erfiðleikum með að koma boltanum framhjá André Onana í markinu.

Það þurfti smá þolinmæði frá heimamönnum en þetta kom á endanum. United gerði mjög vel að halda nágrönnum sínum í skefjum stóran hluta leiksins, en City er bara of stór biti í augnablikinu.

Man City er í öðru sæti, aðeins einu stigi á eftir toppliði Liverpool, en útlitið er alls ekki gott hjá United í baráttu liðsins um að komast í Meistaradeild. United er nú í 6. sæti, ellefu stigum frá Aston Villa sem er í 4. sætinu.
Athugasemdir
banner
banner