Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 04. maí 2021 14:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Spá þjálfara og fyrirliða í Lengjudeildina: 3. sæti
3. sæti: Fjölnir
Lengjudeildin
Fjölni er spáð þriðja sæti.
Fjölni er spáð þriðja sæti.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis.
Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jóhann Árni Gunnarsson.
Jóhann Árni Gunnarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Markvörðurinn Sigurjón Daði Harðarson.
Markvörðurinn Sigurjón Daði Harðarson.
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Hvar endar Fjölnir í sumar?
Hvar endar Fjölnir í sumar?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í Lengjudeildinni í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið og fengu liðin stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði.

Spáin:
1. ?
2. ?
3. Fjölnir, 200 stig
4. Grindavík, 186 stig
5. Grótta, 160 stig
6. Vestri, 124 stig
7. Kórdrengir, 122 stig
8. Þór, 116 stig
9. Afturelding, 67 stig
10. Selfoss, 63 stig
11. Þróttur R, 55 stig
12. Víkingur Ó, 43 stig

3. Fjölnir
Fjölnir hefur verið að flakka á milli deilda síðustu ár en þeir eru mættir núna aftur í Lengjudeildina eftir stutt stopp í deild þeirra bestu. Síðasta þegar liðið féll úr efstu deild, þá hoppaði það beint aftur upp. Hvað gerist í ár? Ef spáin rætist, þá fara þeir ekki beint aftur upp.

Þjálfarinn: Ásmundur Arnarsson stýrir Fjölni þriðja tímabilið í röð. Eftir fall úr Pepsi Max-deildinni 2018 Ási ráðinn þjálfari Fjölnis í annað sinn. Hann þekkir hverja þúfu í Grafarvogi eftir að hafa þjálfað liðið einnig frá 2005 til 2011. Hann hefur einnig þjálfað Völsung, Fylki, Fram, ÍBV og kvennalið Augnabliks á sínum þjálfaraferli.

Álit sérfræðings
Eiður Ben Eiríksson, Rafn Markús Vilbergsson og Úlfur Blandon eru sérfræðingar Fótbolta.net fyrir Lengjudeildina í ár. Úlfur gefur sitt álit á liði Fjölnis.

„Það er óhætt að segja það að síðasta tímabil hjá Fjölni hafi verið mikil vonbrigði. Liðið náði aldrei neinum alvöru takti í sinn leik og eins og oft áður fara knattspyrnufélög í björgunaraðgerðir á miðju tímabili þar sem allur kraftur er settur í að sækja sér útlendinga eða leikmenn sem eiga að bjarga tímabilinu. Því miður fyrir Fjölni þá heppnaðist sú aðgerð frekar illa og skildi í raun ekkert eftir sig nema minni spilatíma á unga Fjölnismenn."

„Eftir síðasta tímabil má reikna með því að Fjölnis liðið ætli sér að svara fyrir sig og stefnan sett á það að fara beinustu leið upp aftur í deild þeirra bestu. Þegar horft er yfir hópinn hjá Fjölni þá er hann sterkur, þeir sem fengu tækifærið í fyrra eru reynslunni ríkari og liðið á fínum stað varðandi stærð hópsins. Fjölnir hefur sótt sér fína leikmenn fyrir þetta tímabil sem styrkja liðið umtalsvert Baldur Sigurðsson, Dofri Snorrason og Alexander Freyr eru allt leikmenn sem ættu að koma með dýrmæta reynslu í liðið hjálpa þeim fjölmörgu ungu og efnilegu leikmönnum sem hafa verið að sýna sig og sanna að undanförnu."

„Liðið er að koma ágætlega undan vetri og sýnilegt að Ási er búinn að leggja mikla vinnu í að stilla varnarleikinn af sem var frekar slakur á síðsta tímabili. Það er ljóst að það á að nýta sér hraða kantmenn ásamt því að fá bakverðina hátt á völlinn. Þrátt fyrir að vera vel mannaðir í flestum stöðum þá er vel hægt að spyrja sig að því hvort að næg samkeppni sé um framherjastöðuna þar sem Andri Freyr virðist vera einn um þá stöðu að undanskildum hinum unga og bráðefnilega Hilmi Rafni. Fjölnisliðið hefur gríðarleg gæði innanborðs í Jóhanni Árna og ljóst að það mun mikið mæða á honum í sumar og þurfa þeir svo sannarlega á honum að halda í toppformi. Ef rýnt er í þá leiki sem spilaðir hafa verið í ár þá er ljóst að Jóhann Árni fær stöðu á miðjunni í ár sem er hans besta staða eftir að hafa týnst svolítið á kantinum á síðasta tímabili. Það verður verður áhugavert að sjá í hvaða átt Jóhann Árni þroskast sem leikmaður og alveg óhætt að segja að hann sé einn af áhugaverðustu ungu leikmönnum í Lengjudeildinni í ár. Fyrsti leikur Fjölnis verður á móti liði Þróttar í Laugardalnum og alveg ljóst að liðið ætlar sér ekkert annað en þrjú stig í fyrsta leik."

Lykilmenn: Alexander Freyr Sindrason, Dofri Snorrason og Jóhann Árni Gunnarsson

Fylgist með: Sigurjón Daði Harðarson
„Strákur fæddur 2001, virkilega efnilegur markvörður sem á framtíðina fyrir sér. Það að Ási setji traust sitt á þennan strák er virkilega ánægjulegt og sýnir vel að það á að byggja upp til framtíðar og líta inn á við til að gera liðið betra. Annar leikmaður sem vert er að fylgjast með er framherji Fjölnismanna Andri Freyr. Hann hefur verið iðinn við kolann undanfarin ár og skoraði til að mynda 11 mörk í 20 leikjum með Aftureldingu í fyrra. Andri er kominn á stærra svið núna, með betri leikmenn í kringum sig og verður því áhugavert að sjá hvort hann nýti sér ekki gluggann láti til sín taka í sumar.

Komnir:
Andri Freyr Jónasson frá Aftureldingu
Baldur Sigurðsson frá FH
Dofri Snorrason frá Víkingi R.
Kristófer Reyes frá Víkingi Ó.
Ragnar Leósson frá Ringköbing IF í Danmörku
Sindri Scheving frá Þrótti R.

Farnir:
Atli Gunnar Guðmundsson
Grétar Snær Gunnarsson í KR
Jeffrey Monakana í Magna
Jón Gísli Ström í Létti
Kristófer Óskar Óskarsson í Aftureldingu (Á láni)
Nicklas Halse til Hvidovre IF í Danmörku
Peter Zachan til Debreceni EAC í Ungverjalandi
Torfi Tímoteus Gunnarsson í Fylki
Örvar Eggertsson í HK

Fyrstu leikir Fjölnis:
6. maí gegn Þrótti á útivelli
14. maí gegn Gróttu á heimavelli
21. maí gegn Grindavík á útivelli
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner