Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
banner
   sun 04. október 2020 20:09
Ívan Guðjón Baldursson
England: Aston Villa niðurlægði Liverpool
Mynd: Getty Images
Aston Villa 7 - 2 Liverpool
1-0 Ollie Watkins ('5 )
2-0 Ollie Watkins ('22 )
2-1 Mohamed Salah ('33 )
3-1 John McGinn ('35 )
4-1 Ollie Watkins ('39 )
5-1 Ross Barkley ('55 )
5-2 Mohamed Salah ('60 )
6-2 Jack Grealish ('66 )
7-2 Jack Grealish ('75 )

Englandsmeistarar Liverpool heimsóttu Aston Villa í síðasta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni og voru niðurlægðir þrátt fyrir að halda boltanum meira en 70% leiktímans.

Ollie Watkins gerði fyrsta mark leiksins eftir mistök í vörn Liverpool þar sem Adrian, sem varði markið í fjarveru Alisson, gaf boltann frá sér með lélegri sendingu. Watkins tvöfaldaði forystuna á 22. mínútu með laglegu marki áður en Mohamed Salah minnkaði muninn.

Það liðu þó aðeins tvær mínútur þar til heimamenn bættu þriðja markinu sínu við. Í þetta sinn var um heppnismark að ræða eftir hornspyrnu þar sem boltinn breytti um stefnu áður en hann hafnaði í netinu. Skömmu síðar fullkomnaði Watkins þrennuna sína eftir að öll vörn Liverpool virtist sofna á verðinum.

Ross Barkley bætti fimmta marki heimamanna við í síðari hálfleik með skoti sem fór af varnarmanni og minnkaði Salah muninn skömmu síðar. Markaveislan var þó hvergi nærri búin því Jack Grealish gerði sjötta mark Villa með öðru skoti sem fór af varnarmanni og inn, í þriðja sinn sem Villa skoraði þökk sé stefnubreytingu.

Grealish gerði síðasta mark leiksins á 75. mínútu þegar hann slapp einn í gegn í skyndisókn eftir sendingu frá John McGinn.

Leikurinn var gríðarlega fjörugur frá upphafi til enda. Aston Villa átti 17 marktilraunir gegn 13 hjá Liverpool.

Liverpool er með níu stig eftir fjórar umferðir. Aston Villa er með fullt hús stiga eftir þrjár.
Athugasemdir
banner
banner
banner