Napoli í viðræðum um Garnacho - Villa hafnaði tilboði West Ham í Duran - Vlahovic orðaður við Chelsea
   fös 04. október 2024 15:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Tíu spá í spilin fyrir einn stærsta leik síðari ára á Íslandi
Það verður stuð og stemning á morgun.
Það verður stuð og stemning á morgun.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Samantha Smith gæti ráðið úrslitum.
Samantha Smith gæti ráðið úrslitum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jasmín Erla fagnar marki í bikarúrslitaleiknum fyrr í sumar.
Jasmín Erla fagnar marki í bikarúrslitaleiknum fyrr í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Andrea Rut Bjarnadóttir, leikmaður Breiðabliks.
Andrea Rut Bjarnadóttir, leikmaður Breiðabliks.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Helena og Mist spá í spilin.
Helena og Mist spá í spilin.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fanney Inga og Berglind Rós eru mikilvægar fyrir Val.
Fanney Inga og Berglind Rós eru mikilvægar fyrir Val.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Agla María hefur mætt til baka með látum eftir meiðsli.
Agla María hefur mætt til baka með látum eftir meiðsli.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Þetta verður mjög svo spennandi leikur.
Þetta verður mjög svo spennandi leikur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það er algjör risaleikur hér á Íslandi á morgun þegar Breiðablik og Valur eigast við í lokaumferð Bestu deildar kvenna. Það munar einu stigi á liðunum og því eiginlega hreinn úrslitaleikur um titilinn. Blikar eru með eins stigs forskot á Valsliðið.

Við á Fótbolta.net fengum tíu aðila til að spá í spilin fyrir þennan risastóra leik. Hvert fer eiginlega Íslandsmeistaratitillinn á morgun?

Alda Ólafsdóttir, leikmaður Fram
Valur 0 - 2 Breiðablik
Úrslitaleikur Íslandsmótsins milli tveggja bestu liða landsins framundan! Blikaliðið hefur verið á eldi í síðustu leikjum og skorað fullt af mörkum og ég held að þær munu mæta hungraðar í leikinn af fullum krafti. Leikurinn mun byrja passívt en svo mun leikurinn opnast meira og Samantha mun halda áfram að stela senunni og skora eitt og leggja upp annað mark á Andreu Rut. Þær munu ná að halda þeirri forystu og vinna Íslandsmeistaratitilinn.

Anton Ingi Rúnarsson, þjálfari
Valur 1 - 1 Breiðablik
Leikurinn sem allir hafa vonast eftir og það verður boðið uppá alvöru dramatík á N1-vellinum fyrir áhorfendur. Fanndís kemur Val yfir eftir um klukkutíma leik og það stefnir allt í að Valur lyfti titlinum en Samantha nokkur Smith skorar rétt áður en lokaflautið skellur og tryggir Blikum titilinn.

Elín Björg Norðfjörð Símonardóttir, markadrottning 2. deildar
Valur 1 - 2 Breiðablik
Þetta verður hörku slagur sem enginn vill missa af. Ég held að þetta verði mjög jafn leikur og muni á endanum snúast um að gera sem fæst mistök. Bæði lið munu skora en Blikar taka þetta heim.

Guðmunda Brynja Óladóttir, leikmaður HK
Valur 2 - 1 Breiðablik
Verður mjög jafn leikur. Sammy heldur áfram að skora og kemur Blikum í 1-0. Anna Rakel setur svo rosalegt aukaspyrnumark. Jasmín tryggir svo sigurinn þegar 10 mínútur eru eftir og Adda mætir glöð í vinnuna á mánudaginn.

Helena Ólafsdóttir, íþróttafréttakona og þjálfari
Valur 1 - 2 Breiðablik
Mér finnst mjög erfitt að spá en einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að Breiðablik vinni þennan leik 2-1. Það hefur verið þannig á þessari leiktíð að aðeins eitt mark skilur þessi lið af.

Mér hefur fundist mikill kraftur í sóknarleik Blika undanfarið og síðan þessi tvö lið léku til úrslita í Mjólkurbikarnum hefur mér fundist meiri bæting hjá liði Breiðabliks. Spilar þar mest inn í að Samantha hefur komist betur og betur inn í leikplan Blika sem hefur haft mikið að segja fyrir hana og líka gert leikmenn í kringum hana betri.

Valsvörnin er reyndar gríðarlega sterk og þess vegna er erfitt að spá og leikurinn gæti í raun farið á alla vegu. Vonandi fáum við bara frábæran leik og setjum um leið áhorfendamet á leik í efstu deild.

Jón Stefán Jónsson, íþróttafulltrúi Dalvíkurbyggðar
Valur 1 - 1 Breiðablik
Jæja þá er það loksins að bresta á, þökk sé nýja fyrirkomulaginu þá erum við að fá hreinan úrslitaleik um íslandsmeistaratitilinn. Tvö langbestu lið landsins að mætast og sannkölluð veisla framundan! Hvað leikinn sjálfar ræðir þá geri ég ráð fyrir nákvæmlega sama leik og áður í sumar þegar þessi lið hafa mæst. Þetta er alltaf mikil skák og lítið skorað. Valur hefur heimavöllinn en Blikar verið meira sannfærandi í undanförnum leikjum. Munar þar að mínu mati mest um að Blikar gerðu "kaup" ársins í að ná Samönthu til sín í glugganum. Enda hefur hún gjörbreytt sóknarleik liðsins. Þær skora nánast af vild! Ég held því miður fyrir Valskonur að leikurinn endi í 1-1 jafntefli og þar með verði Blikakonur meistarar þetta árið. Það er samt aldrei að vita hvað gerist ef staðan er jöfn og lítið eftir, ég trúi ekki öðru en að þá myndu Valskonur gjörsamlega henda öllu upp. Fáum við ekki bara alvöru dramatík í lokin? Breyti því spánni strax í 1-1 á 90 mín en hver skorar eftir hana, það bara þori ég ekki að segja!

Kristín Erna Sigurlásdóttir, fyrrum leikmaður ÍBV og fleiri liða
Valur 2 - 1 Breiðablik
Mig grunar að Breiðablik muni byrja leikinn betur og skori fyrsta markið. Ætli það verði ekki heitasti leikmaður deildarinnar Samantha Smith sem gerir það úr horni frá Öglu Maríu. Valur mun koma sterkari út í seinni hálfleikinn og Fanndís nær að jafna eftir sendingu frá Jasmín um miðjan hálfleikinn. Valsliðið mun svo sigla þessum fjórða titli í röð heim undir lok leiks og eitthvað sem segir mér að Ísabella Sara muni eiga einhvern þátt í sigurmarkinu.

Lilja Dögg Valþórsdóttir, fyrrum leikmaður KR og fleiri liða
Valur 2 - 2 Breiðablik
Ég held, og vona, að þetta verði opinn og skemmtilegur leikur og að við fáum nokkur mörk í þetta. Valur þarf að sækja til sigurs, sem þeim finnst samt alls ekki leiðinlegt, en það gæti skapað svæði fyrir sóknarmenn Breiðabliks sem geta svo sannarlega nýtt sér það og refsað. Samantha Smith hefur komið með vítamínsprautu inní sóknarleik Blika undanfarið og ég held að hún verði mikill hausverkur fyrir varnarlínu Vals. Ég held að Blikar nái að hanga á jafntefli þrátt fyrir að Valsliðið liggi á þeim í lokin.

Mist Rúnarsdóttir, íþróttafréttakona
Valur 1 - 2 Breiðablik
Það er alvöru veisla sem knattspyrnuáhugafólk fær á morgun. Hreinn úrslitaleikur um Íslandsmeistaratitilinn 2024 og tvö frábær lið að mætast.

Þetta verður sjötti leikur liðanna á árinu. Allir hafa leikirnir unnist með einu marki. Valur með fjóra sigra og Breiðablik einn. Það eru allar líkur á því að það verði líka eitt mark til eða frá sem ræður úrslitum á morgun en það hefur aldrei verið erfiðara að spá fyrir um hvað í ósköpunum gerist.

Hér kemur klisjan en þetta verður leikur þar sem dagsformið skiptir öllu máli sem og öll litlu „smáatriðin“ sem skipta mestu máli þegar svo jöfn fótboltalið mætast.

Ef við horfum á frammistöðu og taktinn í liðunum frá því þau mættust síðast í bikarúrslitum finnst manni meðbyrinn vera með Blikum. Þær hafa verið algjörlega stórkostlegar og leikið á als oddi, sérstaklega sóknarlega þar sem ein skærasta stjarna sumarsins, Sammie Smith, hefur stimplað sig rækilega inn í deild þeirra bestu og Agla María er mætt hungruð til baka eftir meiðsli.

Valskonur eiga hinsvegar heimaleik og það mun vega þungt. Þær hafa ekkert endilega verið að henda í reglulegar flugeldasýningar síðustu tímabil þrátt fyrir að hafa unnið sannfærandi Íslandsmeistaratitla. Pétur og co. eru búin að finna formúlu sem skilar sigrum og Valsliðið hefur margoft sýnt okkur að það býr yfir mikilli seiglu og karakter þegar á reynir.

Það er kannski ósanngjarnt að fara að taka út einstaka leikmenn í þessum vel mönnuðu liðum en miðað við frammistöðu Katie Cousins í síðasta deildarleik liðanna þá verður að teljast algjör lykill að hún geti spilað leikinn 100% fyrir Val. Einstakur leikmaður. Á sama tíma hefur Sammie Smith komið eins og stormsveipur inn í lið Blika og virðist ekki geta hætt að skora og leggja upp og á ennþá eftir að spreyta sig almennilega gegn Valsvörninni. Eitthvað segir mér að önnur hvor þessara eigi eftir að eiga fyrirsagnirnar eftir leik. - Þær eru vanar svo engin pressa!

Ég sveiflast eins og pendúll í spám fyrir leikinn og hugsa að ég tvítryggi mig bara og spái Blikum sigri hér þar sem að ég setti 1 á Val í Bestu Mörkunum. 1-2. Jasmín með mark fyrir Val og Agla María og títtnefnd Sammie með mörkin fyrir Blix. En spurðu mig aftur eftir 5 mínútur og þú færð eitthvað allt annað svar… Ég hef ekki hugmynd um hvernig þetta fer. Veit bara að leikurinn verður frábær skemmtun og ég hvet öll sem vettlingi geta valdið að skella sér í vettlingana og mæta á völlinn í þessum lokaleik frábærrar Bestu deildar 2024. Jiminn almáttugur hvað ég er spennt!

Sædís Rún Heiðarsdóttir, landsliðskona
Valur 2 - 1 Breiðablik
Ég held að leikurinn fari 2-1 fyrir Val. Fanney verður mögnuð í markinu og heldur val inn í þessu. Jasmín kemur Val yfir en Samantha jafnar fyrir Blix stuttu seinna. Fanndís klárar þetta svo fyrir Val í lokin!

Niðurstaða:
Þrjú spá Val (Valur verður þá meistari)
Þrjú spá jafntefli (Breiðablik verður þá meistari)
Fjögur spá Breiðabliki sigri (Breiðablik verður þá meistari)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner