Man City gerir tilboð í Olmo - Barcelona reynir líka að fá spænska landsliðsmanninn - Wan-Bissaka vill ekki fara til West Ham
   mán 04. desember 2023 17:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Óli Stefán hættur með Sindra (Staðfest)
Óli Stefán Flóventsson.
Óli Stefán Flóventsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óli Stefán Flóventsson er ekki lengur þjálfari Sindra en frá þessu greinir hann á Facebook-síðu sinni.

Samningur Óla Stefáns við félagið rann út 1. október síðastliðinn og ákvað hann ekki að framlengja samninginn.

Óli Stefán kom Sindra upp úr 3. deild í fyrra en liðið féll aftur úr 2. deild í sumar. Óli fór í leyfi um mitt sumar eftir að hann gagnrýndi bæjarfélagið fyrir að styðja ekki nægilega vel við bakið á félaginu. Hann sneri fljótlega aftur til starfa og kláraði tímabilið en verður ekki áfram.

Færsla Óla Stefáns
Fyrir þá sem ekki vita þá er ágætt að það komi fram að ég er ekki þjálfari Sindra í dag. Samningur minn rann út 1. október og ég lét það strax í ljós að ég ætlaði mér ekki að framlengja samninginn.

Ég hef hafið störf á öðrum vettvangi en verð þó að segja að það er ansi sérstakt að vera ekkert nálægt fótboltanum, hvorki sem leikmaður né þjálfari, í fyrsta skipti frá því ég man eftir mér. Hér hjá Sindra hóf ég þjálfaraferilinn árið 2010 og hef samtals þjálfað Sindraliðið í átta ár af mínum fjórtán ára þjálfaraferli. Þegar ég tók við liðinu fyrst þá vorum við í neðstu deild en okkur tókst að vinna gömlu þriðju deildina og festa okkur vel í sessi í annarri deild. Ég tók svo aftur við Sindra, aftur í þriðju deild, og aftur tókst okkur að komast upp um deild en því miður náðum við ekki að halda okkur þar.

Ásamt meistaraflokks þjálfun hef ég líka þjálfað yngri flokka og það verður að segjast eins og er að þar hef ég lært ótrúlega mikið um aðra skilgreiningu árangurs en bara sigur í næsta leik. Mín skoðun er að í yngri flokkum er óplægður akur tækifæra í því að þjálfa lífsleikni, eins og til dæmis mótlæti. Ef að bikar eða gullverðlaun er eini mælikvarði árangurs þá erum við á algjörum villigötum í íþróttaþjálfun, og erum því ekki að nota eða nýta verkfærin rétt. Þetta hef ég lært í þjálfun yngri flokka hjá Sindra og er ótrúlega þakklátur fyrir.

Frá fyrsta degi hef ég gert allt mitt til að bæta umgjörð og reynt að hækka ránna, ár frá ári. Að mínu mati er algjör undirstaða blómlegs íþróttastarfs að umgjörð sé góð. Í gegnum árin hef ég kynnst frábæru fólki í kringum félagið, stjórnarfólki, starfsmönnum, leikmönnum, foreldrum og öðrum sem hafa komið að starfinu með einum eða öðrum hætti. Ég er afar þakklátur og stoltur að hafa þjálfað Sindra og óska þeim ekkert nema velfarnaðar í framtíðinni. Ég ætla mér að taka smá frí frá þjálfun núna en reikna nú með að vera með puttana í einhverjum verkefnum tengdum fótbolta.

Kær kveðja,
Óli Stefán Flóventsson
Athugasemdir
banner