Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
banner
   sun 05. apríl 2020 14:00
Ívan Guðjón Baldursson
Dybala um Ronaldo: Hataður í Argentínu - Öðruvísi en ég hélt
Mynd: Getty Images
Argentínski framherjinn Paulo Dybala hefur myndað sterk tengsl við samherja sinn hjá Juventus Cristiano Ronaldo jafnt innan sem utan vallar.

Dybala segist hafa haft allt aðra hugmynd um Ronaldo og persónuleika hans áður en hann kynntist honum.

„Ég sagði við Cristiano: 'Í Argentínu ertu svolítið hataður útaf ímynd þinni, hvernig þú ert og hvernig þú labbar. Sannleikurinn er sá að þú hefur komið mér skemmtilega á óvart því þú ert öðruvísi en ég hélt'," sagði Dybala í viðtali við argentínska knattspyrnusambandið.

Dybala var gagnrýndur síðasta sumar þegar hann sagði í viðtali að það væri erfitt að spila með Lionel Messi í argentínska landsliðinu.

„Ég ætlaði ekki að gagnrýna liðsfélaga, ég vildi bara bæta eitthvað sem var ekki nógu gott. Ég talaði við Leo því við erum mjög svipaðir leikmenn taktískt séð. Ég fékk ekki margar mínútur á HM eða í Suður-Ameríkubikarnum en á sama tíma virti ég alltaf ákvarðanir þjálfaranna."

Að lokum var Dybala spurður út í kórónuveiruna en hann greindist með hana í síðasta mánuði.

„Ég hóstaði mikið, var þreyttur og fann fyrir miklum kulda þegar ég reyndi að sofna á næturnar. Það var svolítið erfitt að ganga í gegnum þetta án þess að örvænta. Ég gerði mitt besta til að vera rólegur og lýsa einkennunum fyrir læknum Juventus."
Athugasemdir
banner
banner