Afturelding tapaði fyrir Breiðablik 2-0 í opnunarleik Bestu deildarinnar í kvöld. Arnór Gauti Ragnarsson var svekktur með úrslitinn en ánægður með daginn þar sem Afturelding spilaði sinn fyrsta leik í deild þeirra bestu.
Lestu um leikinn: Breiðablik 2 - 0 Afturelding
„Við vorum aðeins passívari en við bjuggumst við, það sótti helvíti vel á. Það voru margir að spila sinn fyrsta leik í efstu deild þannig það var örugglega einhver fiðringur í mönnum þarna. Við vorum að spila á móti besta liðinu á Íslandi þannig að, en við verðum að vera stoltir af okkar framlagi. Svo er það bara ÍBV." Sagði Arnór en þetta var sérstakur dagur fyrir marga Mosfellinga.
„Þessi leikur þýddi mikið fyrir marga. Það er mikil tenging á milli klúbbana, það eru margir, meðal annars ég sem hafa spilað hérna. Þetta var bara fullkominn dagur eiginlega, bara yndislegt að byrja þetta tímabil."
Spá Fótbolta.net fyrir tímabil setti Aftureldingu í 10. sæti en Arnór segir að hann geri sitt besta í að vera að pæla sem minnst í slíkri umfjöllun.
„Við reynum að horfa eins lítið og við getum í það, en auðvitað er ógeðslega erfitt að fara framhjá því. Okkar væntingar eru bara að gera okkar besta og bara njóta þess að vera í deild þeirra bestu. Við erum bara ennþá að skrifa söguna þannig við getum ekkert nema bara verið með bros á vör og haldið áfram."
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.