„Ég elska að spila fótbolta, þetta er búið að vera mjög skemmtilegt," sagði Freyr Sigurðsson, leikmaður Fram, en þessi tvítugi miðjumaður skoraði sigurmark liðsins gegn Aftureldingu í 8-liða úrslitum á dögunum. Þá skoraði hann í sigri á ÍBV í deildinni um helgina.
Fram hefur ekki tapað í síðustu fjórum leikjum í deild og bikar en auk þess að vera komið í undanúrslit bikarsins situr liðið í 5. sæti deildarinnar aðeins stigi á eftir Stjörnunni sem situr í 4. sæti.
„Það er góður mórall í liðinu og erum mjög ánægðir og ætlum bara að halda áfram," sagði Freyr.
Freyr er á miðjunni ásamt Simon Tibbling og Fred Saraiva. Hvernig er að spila með þeim?
„Það er ótrúlegt. Simon er eitthvað rugl góður og Fred líka. Það gefur manni mikið traust og þeir hjálpa mér og peppa mig áfram, það er frábært að spila með þeim," sagði Freyr.
Tibbling gekk til liðs við félagið síðasta vetur en hann hefur átt frábæran feril í Evrópu og þá var hann í U21 landsliði Svía sem vann EM árið 2015 og á einn A-landsleik að baki.
„Hann er kannski ekkert að öskra menn áfram (á æfingum) en hann tekur mann í spjall og segir til. Hann er frábær í fótbolta og mér eiginlega brá þegar ég sá hann hvað hann er góður," sagði Freyr.
Athugasemdir