Hildur lagði upp og Telma hélt hreinu

Sandra María Jessen var í byrjunarliði FC Köln sem tók á móti Bayer Leverkusen í efstu deild í Þýskalandi og skoraði hún fyrsta mark leiksins eftir tvær mínútur.
Köln hélt forystunni allt þar til á 41. mínútu þegar flóðljósin biluðu. Leikurinn var stoppaður meðan unnið var í því að leysa vandann.
Flóðljósin fóru þó ekki aftur í gang og að lokum var ákveðið að fresta restinni af leiknum.
Söndru mistókst að skora í fyrstu þremur leikjunum sínum með Köln en setti svo tvennu í 2-1 sigri í síðustu umferð og skoraði aftur í dag.
Hildur Antonsdóttir var þá í byrjunarliði Madrid í efstu deild á Spáni og lagði upp fyrra markið í 2-0 sigri gegn Levante. Madrid er með 11 stig eftir 6 umferðir.
Telma Ívarsdóttir varði þá mark Rangers í risasigri í skoska deildabikarnum. Rangers vann 12-0 gegn St. Johnstone og fer áfram í 8-liða úrslitin.
Í hollenska boltanum kom hin 17 ára gamla Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir við sögu í sigri hjá PEC Zwolle á útivelli gegn Excelsior. Zwolle er með 6 stig eftir 4 fyrstu umferðirnar á nýju tímabili í efstu deild.
Emilía Kiær Ásgeirsdóttir var þá ónotaður varamaður í jafntefli hjá RB Leipzig í efstu deild í Þýskalandi, eins og Sigdís Eva Bárðardóttir hjá Norrköping.
Að lokum kom Daníela Dögg Guðnadóttir við sögu í góðum sigri Álasunds gegn Tromsö í næstefstu deild í Noregi. Álasund tryggði sér sæti í efstu deild með þessum sigri.
Köln 1 - 0 Bayer Leverkusen
1-0 Sandra María Jessen ('2)
Leik frestað!
Madrid 2 - 0 Levante
Rangers 12 - 0 St. Johnstone
Excelsior 0 - 1 PEC Zwolle
Nurnberg 1 - 1 RB Leipzig
Norrköping 2 - 0 Vaxjö
Tromsö 0 - 2 Aalesund
Athugasemdir