Real Madrid undirbýr risatilboð í Rodri - Maguire orðaður við Sádi-Arabíu - Olise í stað Salah?
   sun 05. október 2025 20:59
Ívan Guðjón Baldursson
Spánn: Iago Aspas stöðvaði sigurgöngu Atlético
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Celta Vigo 1 - 1 Atlético Madrid
0-1 Carl Starfelt, sjálfsmark ('6)
1-1 Iago Aspas ('68)
Rautt spjald: Clément Lenglet, Atlético ('40)

Celta Vigo tók á móti Atlético Madrid í lokaleik spænsku deildarinnar fyrir landsleikjahlé og tóku lærisveinar Diego Simeone forystuna snemma leiks þegar sænski miðvörðurinn Carl Starfelt varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net.

Atlético, sem tókst að skora tíu mörk í síðustu tveimur leikjum gegn Real Madrid og Eintracht Frankfurt, átti erfitt uppdráttar í sóknarleiknum og flæktust hlutirnir heldur betur þegar Clément Lenglet lét reka sig af velli með seinna gula spjaldið sitt á 40. mínútu.

Tíu gestir í liði Atlético vörðust eins og þeir gátu á meðan heimamenn í Vigo sóttu án afláts. Staðan var ennþá 0-1 þegar kempunni Iago Aspas var skipt inn af bekknum og tók það hann ekki nema fimm mínútur að setja boltann í netið til að jafna metin.

Celta reyndi að sækja sér jöfnunarmark en tókst ekki svo lokatölur urðu 1-1. Atlético slapp með skrekkinn.

Atlético er í fimmta sæti með 13 stig eftir jafnteflið, sjö stigum fyrir ofan Celta sem er enn án sigurs á tímabilinu. Þetta var sjötti jafnteflisleikur Celta í átta umferðum á deildartímabilinu.
Athugasemdir
banner
banner