Árbæingurinn ungi Hjörtur Hermannsson var í viðtali í útvarpsþætti Fótbolta.net á X-inu á laugardag. Þessi efnilegi varnarmaður leikur með íslenska U21-landsliðinu og er í herbúðum PSV Eindhoven í Hollandi.
Hjörtur sem er fæddur 1995 er ánægður í herbúðum PSV en hann leikur með varaliði félagsins í hollensku B-deildinni.
„Þetta er í fyrsta sinn sem varaliðin fá að taka þátt í næst efstu deild og þar er ég fastamaður. Ég er að spila allar 90 mínúturnar í miðverðinum," segir Hjörtur.
„Það eru alvöru leikir í hverri viku. Maður er kannski að mæta 30 ára lurki sem er búinn með 300 leiki í atvinnumennsku. Maður er fljótur að læra svona."
Varalið PSV hefur verið að rétta úr kútnum eftir frekar erfiða byrjun.
„Þetta hefur aðallega verið spurning um hugarfarið tel ég. Þessir strákar sem hafa verið í gegnum akademíuna hafa verið vanir því að vera 4-0 yfir í hálfleik. Svo mæta þeir þarna í næst efstu deild og halda að það sé hægt að taka hana með vinstri. Það sást strax í fyrstu leikjunum að það var ekki að fara að gerast, það var valtað yfir okkur í fyrstu leikjunum og þá var leitað aftur í grunninn og við höfum ekki litið við síðan við náðum að snúa þessu við."
Tíminn með mér í liði
Hjörtur er farinn að banka á dyrnar hjá aðalliðinu og verið valinn í hópinn hjá því.
„Það hefur allt sinn tíma. Mér líður afskaplega vel með stöðu mína eins og hún er. Ég bíð spenntur eftir tækifærinu og mun grípa það ef það gefst. En ég hef tímann með mér í liði, maður er bara að flýta sér hægt," segir Hjörtur sem hefur verið að spila með U21-landsliði Íslands þrátt fyrir að vera enn í U19-liðinu
„Það skemmtilegasta sem maður gerir er að spila landsleiki og að sjálfsögðu vill maður spila á eins háum gæðaflokki og er mögulegt. Það er gaman að fá tækifæri með U21 liðinu."
Fínt að geta leitað til hans
Bróðir Hjartar, Björn Orri Hermannsson, var á sínum tíma í atvinnumennskunni hjá Ipswich en hann þurfti að leggja skóna á hilluna vegna ökklameiðsla aðeins 22 ára gamall.
„Ég bý við það að hafa bróðir sem hefur farið í gegnum þetta. Það er alltaf fínt að geta leitað til hans. Hann er algjört toppeintak en var óheppinn með meiðsli. Hann veit hvað hann syngur og við erum gott teymi," segir Hjörtur sem var fenginn til að lýsa sjálfum sér sem leikmanni að lokum.
„Ég er sterkur í loftinu, góður að skipuleggja. Ég get leyst hvað sem er með löppunum en finnst líka fínt að geta djöflast og barist. Einn sterkasti eiginleiki minn er að ég mun aldrei gefast upp."
Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir