Forgangsatriði fyrir Man Utd að fá Gyökeres - Zirkzee til Aston Villa?
   mið 06. febrúar 2013 13:00
Aðsendir pistlar
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Afríkukeppnin - Svo miklu meira en bara fótboltamót
Jónas Haraldsson skrifar
Aðsendir pistlar
Aðsendir pistlar
Jónas Haraldsson.
Jónas Haraldsson.
Mynd: Úr einkasafni
Kenneth Omeruo leikmaður Nígeríu og Didier Drogba leikmaður Fílabeinsstrandarinnar í baráttu á mótinu í ár.
Kenneth Omeruo leikmaður Nígeríu og Didier Drogba leikmaður Fílabeinsstrandarinnar í baráttu á mótinu í ár.
Mynd: Getty Images
Hress stuðningsmaður Togo.
Hress stuðningsmaður Togo.
Mynd: Getty Images
Grænhöfðaeyjar og Angóla eigast við.
Grænhöfðaeyjar og Angóla eigast við.
Mynd: Getty Images
Í Suður-Afríku fer nú fram Afríkukeppnin í knattspyrnu. Þó margir hafi eflaust ekki heyrt af henni áður er hún eldri en Evrópumótið í sömu íþrótt og á sér um margt áhugaverða sögu. Fyrsta Afríkukeppnin var til að mynda haldin árið 1957 og tóku þá aðeins þrjú lið þátt – Egyptaland, Súdan og Eþíópía. Egyptaland bar þá sigur úr býtum og hefur síðan unnið keppnina sex sinnum til viðbótar. Þrátt fyrir að vera sigursælasta lið hennar náði Egyptaland ekki að komast í keppnina síðustu tvö skipti. Í síðustu keppni vann Sambía sinn fyrsta Afríkutitil en þetta árið verða krýndir nýir meistarar. Afríkukeppnin snýst þó ekki aðeins um knattspyrnu.

Knattspyrnusamband Afríku var stofnað árið 1957 og voru stofnaðilarnir fjórir talsins – þau þrjú lið sem tóku þátt í fyrstu keppninni og Suður-Afríka. Aðskilnaðarríkinu var síðan meinuð þátttaka þar sem það krafðist þess að senda lið eingöngu skipað hvítum leikmönnum og fékk því ekki að taka þátt í keppninni fyrr en 1996.

Í flestum nýlenduríkjunum hafði knattspyrnan fengið að vaxa og dafna án mikilla afskipta nýlenduyfirvalda, öfugt við stjórnmálaöflin. Í Tansaníu stofnaði því hópur sjálfstæðissinna knattspyrnufélag til þess eins að geta haldið fundi án þess að eiga á hættu að vera handteknir. Þá tóku nöfn, búningar og merki félaga oft á tíðum upp tákn þjóðernishyggju. Alsírskt knattspyrnufélag stofnað á tímum franskra yfirráða í landinu tók sér til að mynda nafn sem vísaði til fæðingarhátíðar Múhameðs og annar litur félagsins var grænn, sem er eitt einkenna Íslam. Þegar nýlendurnar fengu síðar sjálfstæði urðu knattspyrnuliðin oft sameiningartáknin sem áttu að sýna helstu einkenni og styrkleika þjóðanna. Augljósast er þetta í nafngiftum landsliða þeirra en öll bera þau sérstök nöfn – Lið Alsír er kallað Eyðimerkurrefirnir, Egypta Faraóarnir, Sambíu Koparbyssukúlurnar, Fílabeinsstrandarinnar Fílarnir og svo mætti lengi áfram telja.

Árið 1958 höfðu uppreisnarmenn barist fyrir sjálfstæði Alsír í fjögur ár. Franska landsliðið var við það að fara á heimsmeistaramótið og voru tveir Alsíringar kallaðir í liðið – besti varnarmaður frönsku deildarinnar og einn besti sóknarmaður hennar. Þeir struku hins vegar kvöldið áður, fóru til Sviss og þaðan til Túnis þar sem þeir, ásamt fleiri alsírskum leikmönnum úr frönsku deildinni, tóku upp málstað uppreisnarmanna og stofnuðu alsírska landsliðið í knattspyrnu. Frakkar komu í veg fyrir aðild þess að Alþjóðaknattspyrnusambandinu en það skipti litlu máli því næstu fjögur árin ferðaðist liðið um heiminn sem landslið Alsír í knattspyrnu. Það varð því fljótt að fulltrúum Alsíringa á erlendri grund og vakti mikla athygli á sjálfstæðisbaráttunni, sem landið vann svo fjórum árum seinna. Þess má geta að árið 1958 tóku Frakkar á móti Brasilíu í undanúrslitunum heimsmeistaramótsins. Í seinni hálfleik leiksins skoraði 17 ára sóknarmaður Brasilíu þrjú mörk og tryggði þeim sigur 5 – 2. Margir fullyrða hins vegar að ef besti varnarmaður frönsku deildarinnar hefði spilað leikinn hefði umræddur Pelé aldrei skorað þrennuna og Frakkar líklegast orðið heimsmeistarar í stað Brasilíu.

Upphaflega áttu Afríkuríkin ekki öruggt sæti á heimsmeistaramótinu heldur varð sú Afríkuþjóð sem vann undankeppnina að fara í umspil við evrópskt eða asískt landslið. Kwame Nkrumah, forseti Gana, var fylgjandi svokallaðri Afríkustefnu (e. Pan-Africanism), sem gekk út á að saman myndu ríkin ná langt – samvinna væri leiðin fram á við og aðeins þannig gætu þau komist á sinn réttmæta stall. Í mótmælaskyni við fyrirkomulag heimsmeistaramótsins sannfærði Nkrumah Afríkuríkin um að sniðganga það. Það varð síðan til þess að árið 1970 var Afríku tryggt eitt sæti í lokakeppni heimsmeistaramótsins sem Marokkó síðan náði. Á næsta heimsmeistaramóti sem fram fer í Brasilíu árið 2014 mun Afríka eiga fimm sæti.

Fyrri borgarastyrjöld Fílabeinsstrandarinnar hófst árið 2002. Þremur árum seinna tryggðu Fílarnir sér svo þátttökurétt á heimsmeistaramótinu í Þýskalandi 2006 með 3 – 1 sigri á Súdan. Didier Drogba, leikmaður Fílanna, ákvað þá í beinni sjónvarpsútsendingu að leik loknum, að fallast á kné sér og biðja stríðandi fylkingar að leggja niður vopn sín. Innan við viku síðar varð honum að ósk sinni. Í kjölfarið lagði Drogba til að viðureign Fílanna og Madagascar í undankeppni Afríkukeppninnar árið 2007 færi fram í höfuðvígi uppreisnarmanna, borginni Bouake í norðurhluta landsins. Aftur varð honum að ósk sinni og leikurinn fór fram að viðstöddum leiðtogum og hermönnum beggja fylkinga en þetta var í fyrsta sinn í fimm ár sem þær mættust utan vígvallarins. Stuttu seinna var svo skrifað undir formlegt friðarsamkomulag, sem entist í rúm þrjú ár.

Að ofangreindu má sjá að Afríkukeppnin snýst um miklu meira en bara knattspyrnu. Hún snýst líka um jafnræði óháð trú eða litarhætti og rétt Afríkuríkja til þess að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi á jafnréttisgrundvelli. Liðin hafa líka orðið hlutgervingar þjóðanna og geta því haft mikil áhrif á viðhorf fólks og tilfinningar – og jafnvel átt þátt í því að binda endi á borgarastyrjaldir.

Nú eru aðeins fjögur lið eftir í keppninni og takast þau á í dag og í kvöld. Svörtu stjörnurnar (Gana), Ofur-ernirnir (Nígería), Stóðhestarnir (Búrkína Fasó) og Ernirnir (Malí) munu keppa um að komast í úrslitaleikinn sunnudaginn 10. febrúar næstkomandi. Ég hvet því alla til þess að fylgjast með þeim leikjum sem eftir eru og kynnast keppninni, sem er svo sannarlega um meira en bara knattspyrnu.

Hægt er að horfa á leikina á Eurosport og fylgjast með umfjöllun um þá á Facebooksíðu áhugamannafélagsins um Afríkukeppnina í fótbolta.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner