Heimild: KSÍ

Slóvakía 0 - 2 Ísland
0-1 Elín Metta Jensen ('19)
0-2 Berglind Björg Þorvaldsdóttir ('78)
0-1 Elín Metta Jensen ('19)
0-2 Berglind Björg Þorvaldsdóttir ('78)
Íslenska kvennalandsliðið vann 2-0 sigur gegn Slóvakíu í vináttulandsleik ytra sem er nýlokið.
Margrét Lára Viðarsdóttir lék í fremstu víglínu og komst í dauðafæri á 7. mínútu en markvörður Slóvaka varði virkilega vel af stuttu færi.
Tólf mínútum síðar kom Elín Metta Jensen Íslandi yfir eftir frábæra sókn. Hallbera Guðný Gísladóttir lék boltanum inn í teiginn þar sem Elín kom á ferðinni og renndi boltanum í netið.
Út fyrri hálfleik átti Ísland góðar sóknir upp kantana en það vantaði meiri gæði í fyrirgjafir og síðustu sendingarnar. Slóvakía náði að ógna eitthvað úr skyndisóknum.
Tvær breytingar voru á íslenska liðinu í hálfleik. Elísa Viðarsdóttir og Berglind Björg Þorvaldsdóttir komu inn fyrir Önnu Björk Kristjánsdóttur og Rakel Hönnudóttur sem lék sinn 80. landsleik í dag. Einnig var breytt um leikkerfi, farið úr 3-4-3 í 4-1-4-1.
Elísa var nálægt því að skora stuttu eftir að hún kom inná, hún var hársbreidd frá því að skalla aukaspyrnu Margrétar í netið.
Berglind náði svo að skora og koma Íslandi tveimur mörkum yfir á 78. mínútu. Markið skoraði hún með skalla eftir horn. Langþráð mark hjá sóknarmanninum sem var að skora sitt fyrsta mark fyrir A-landsliðið í 24 landsleikjum.
Hornið kom eftit að Agla María Albertsdóttir, 17 ára kantmaður úr Stjörnunni, hafði komist alein í gegn en markvörður heimamanna varði í horn. Agla kom inn sem varamaður í sínum fyrsta A-landsleik.
Á föstudag heldur íslenski hópurinn til Hollands þar sem hann mun dvelja á sama hóteli og liðið verður á í sumar. Þá fá stelpurnar tækifæri til að kynnast svæðinu sem verður heimili þeirra á meðan á EM stendur. Næsta þriðjudag mætir Ísland svo gestgjöfunum á EM í sumar, Hollendingum, í vináttuleik.
Lið Íslands: Guðbjörg Gunnarsdóttir; Anna Björk Kristjánsdóttir (Elísa Viðarsdóttir), Sif Atladóttir, Glódís Perla Viggósdóttir; Rakel Hönnudóttir (Berglind Björg Þorvaldsdóttir), Sara Björk Gunnarsdóttir (Málfríður Erna Sigurðardóttir), Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Hallbera Guðný Gísladóttir; Elín Metta Jensen (Katrín Ásbjörnsdóttir), Margrét Lára Viðarsdóttir (Guðmunda Brynja Óladóttir), Fanndís Friðriksdóttir (Agla María Albertsdóttir).
Athugasemdir