
„Þetta var sannfærandi og öruggt. Þetta var góður leikur að mörgu leyti," sagði Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari kvenna, við Fótbolta.net eftir 2-0 sigur á Slóvakíu í vináttuleik í dag.
Berglind BJörg Þorvaldsdóttir skoraði sitt fyrsta landsliðsmark í dag en hún kom inn á í fremstu víglínu í síðari hálfleik. Berglind var að leika sinn 24. landsleik og biðin eftir fyrsta markinu hefur verið löng og ströng.
„Það var þungu fargi létt af henni og öllu liðinu í rauninni. Við fögnuðum öll með henni. Þetta var gæsahúðar augnablik þrátt fyrir æfingaleik, þetta var það tilfinningaþrungið hjá henni. Þetta var frábært augnablik fyrir hana og við samgleðjumst henni."
Ísland spilaði 3-4-3 í fyrri hálfleik en 4-1-4-1 í síðari hálfleiknum.
„Það var ákveðið fyrirfram. Við vildum sjá hvernig það virkaði á okkar lið að skipta um kerfi í miðjum leik og sjá hvernig andstæðingarnir myndu bregðast við því. Í hálfleik breyttu þau allri varnarfærslur en svo þegar þau sáu hvernig við vorum þá breyttu þau aftur. Þetta tók engan takt frá okkur og við náðum að stjórna leiknum áfram."
„Sóknarlega vorum við oft að skapa okkur frábæra stöðu en ákvörðunartökur á síðasta þriðjungi hefðu mátt vera betri. Markvörðurinn þeirra átti líka frábæran leik og greip vel inn í. Við héldum skyndisóknum þeirra mjög vel niðri sem og föstum leikatriðum."
Hallbera Gísladóttir meiddist á ökkla í dag en Freyr reiknar með að hún verði klár í vináttuleikinn gegn Hollandi á þriðjudag. Freyr býst við að halda sig við svipað byrjunarlið þar.
„Ég reikna ekki með að gera margar breytingar á liðinu. Við þjálfararnir eigum eftir að sjá hvernig hópurinn kom frá þessum leik og við sjáum til næstu daga. Ég vil fá aðeins meira frá okkur á þriðjudaginn. Við vinnum úr því sem var gott í dag, höldum áfram að bæta okkur og spilum ennþá betur á þriðjudaginn," sagði Freyr.
Athugasemdir