fim 06. júní 2019 12:30
Arnar Daði Arnarsson
Kolbein dreymdi um að spila með bróður sínum
Kolbeinn Sigþórsson.
Kolbeinn Sigþórsson.
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
Zeljko Sankovic.
Zeljko Sankovic.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kolbeinn ásamt Auðunni Blöndal og bróðir sínum, Andra Sigþórssyni.
Kolbeinn ásamt Auðunni Blöndal og bróðir sínum, Andra Sigþórssyni.
Mynd: Twitter
Næst markahæsti leikmaður íslenska landsliðsins frá upphafi, Kolbeinn Sigþórsson leikmaður AIK í Svíþjóð og íslenska landsliðsins er gestur hlaðvarpsþáttarins 90 mínútur undir stjórn Harðar Snævars Jónssonar, ritstjóra 433.is að þessu sinni.

Í þættinum er farið yfir feril Kolbeins sem hefur verið litríkur en segja má að ferill Kolbeins hafi byrjað strax í yngstu flokkum Víkings. Kolbeinn var svokölluð barnastjarna og muna eflaust allir sem fylgdust með yngri flokkum á þeim tíma sem Kolbeinn var að spila þar eftir honum.

Í þættinum ræðir Kolbeinn um fyrstu árin sín hjá Víkingi og síðan vistaskipti sín yfir í HK sem vöktu athygli á sínum tíma.

„Það voru miklar væntingar gerðar til manns eftir því sem maður vann fleiri mót og skoraði fleiri mörk í yngri flokkunum. Maður fann það að það var komin auka pressa á mig að skora 10 mörk í leik. Á meðan voru settir þrír leikmenn á mig í hverjum leik og foreldarar að öskra inn á völlinn: Tæklið hann!" segir Kolbeinn til að mynda þegar hann rifjar upp árið í 6. og 5. flokki með Víkingi.

Minningar sem maður gleymir aldrei
Segja má að Kolbeinn hafi slegið í gegn á Shell-mótinu sem er árlegt yngri flokka mót fyrir 6.flokk drengja sem haldið er í Vestmannaeyjum. Kolbeinn fór þrívegis á það mót.

„Fyrsta skiptið var ég að keppa upp fyrir mig og varð markakóngur. Eftir það þá byrjaði fótboltinn að rúlla hjá mér almennilega. Þetta eru mínar bestu minningar, Shell-mótið og Essó-mótið og öll þessi fótboltamót. Þetta eru minningar sem maður gleymir aldrei. Þegar maður lítur til baka þá er geðveikt að hafa upplifað svona góða æsku þar sem maður var í sviðsljósinu. Það er gaman að því og það hefur alltaf verið auka pressa á mér," sagði Kolbeinn sem skipti yfir í HK 14 ára gamall og fer þá til Zeljko Óskar Sankovic yngri flokka þjálfara hjá HK.

„Mér fannst ég vera farinn að staðna í Víkingi og fannst ég þurfa nýja áskorun. Það var ástæðan fyrir því að ég færði mig um set. "

„Ég fann ekki mikið fyrir því að það hafi verið einhver læti í kringum þessi skipti mín. En það hefur eflaust verið einhver læti. Ég held að þetta hafi verið rétt skref. Mér fannst eins og það væri ekkert meira til að vinna í Víking. Ég þekkti Zeljko eftir að hafa verið hjá honum á séræfingum. Hann kom mér í þvílíkt form. Hann tók mig gjörsamlega í gegn og tók þolið, sprengikraftinn, tæknina og allt sem maður þarf til að vera í toppformi og hann sá um þetta. Ég var hjá honum tvisvar sinnum á dag nokkra daga vikunnar í sérprógrammi."

Á Zeljko mikið að þakka
Kolbeinn byrjaði að spila með meistaraflokki HK í 1. deildinni aðeins 16 ára gamall.

„Ég man ég hætti í MK á þessum tíma bara til að fókusera almennilega á fótboltann. Þetta hálfa ár var ég hjá honum og síðan fer ég á Evrópumótið með U-17 ára landsliðinu og þá spring ég út og skora fimm mörk gegn Rússum. Þá fara erlend lið að skoða mig og hafa samband. Ég hef miklu að þakka honum Zeljko," sagði Kolbeinn.

Kolbeinn Sigþórsson er bróðir Andra Sigþórssonar fyrrum landsliðsmanns sem hætta þurfti knattspyrnuiðkun fyrr en stefnt var að vegna þráðlátar meiðsla. Kolbeinn segir að bróðir sinn hafi ávalt verið hans helsta fyrirmynd í boltanum.

„Hann var í KR og fer síðan út til Salzburg og Molde. Ég horfði alltaf upp til hans og ætlaði að spila með honum. Það var mitt markmið. Það var síðan hrikalega svekkjandi þegar hann þurfti að hætta vegna meiðsla. Það var alltaf mitt markmið að spila með honum í landsliðinu einn daginn," sagði Kolbeinn um bróðir sinn.

Hægt er að hlusta á hlaðvarpið í heild sinni hér.
Athugasemdir
banner
banner