Það vakti athygli í kvöld að Albert Guðmundsson kom ekkert við sögu þegar Ísland gerði 1-1 jafntefli við Albaníu.
Landsliðsþjálfarinn Arnar Þór Viðarsson var spurður út í Albert á blaðamannafundi eftir leik.
Landsliðsþjálfarinn Arnar Þór Viðarsson var spurður út í Albert á blaðamannafundi eftir leik.
„Í Ísrael kom Albert inná fyrir Svein Aron í senterinn. Eins og þið vitið þá eru fimm skiptingar og þrír skiptigluggar sem maður hefur. Sem þjálfari er maður með ákveðna strategíu fyrir leik og svo í leiknum eftir því hvernig hann þróast."
„Núna var það þannig að orkan í Þóri var ekki sú sama og í síðasta leik, Jón Dagur spilaði mjög mikið og þetta voru tvær stöður þar sem við vildum nota einn glugga til að breyta. Hákon og Mikael Neville komu þar inn. Birkir meiðist svo og fer útaf og Arnór Sig hefur ekki spilað mikið að undanförnu og er búinn að gefa rosalega mikið af sér í þessum tveimur leikjum. Þá var spurningin: Við erum með Albert, við erum með Mikael Neville sem getur spilað hægri og Mikael Egil. Það var taktísk ákvörðun að setja Mikael Egil út á hægri kantinum í þessari skiptingu. Það voru fleiri leikmenn heldur en Albert sem spiluðu ekki í dag."
Arnar segir að meiðsli Birkis séu ekki alvarleg en það hafði verið ákveðið fyrir verkefnið að hann myndi ekki spila gegn San Marínó.
Arnar var svo spurður beint út í Albert. „Er ekkert svekkjandi að geta ekki notað hann meira? Er hann sáttur við þessa stöðu?"
„Nei, hann er hundfúll og ég væri líka hundfúll út í hann ef hann væri ekki fúll."
„Aftur, það er þessi liðsheild sem hefur alltaf fleytt íslenska landsliðinu áfram."
Arnar benti svo á, sem dæmi, að Jóhann Berg og Birkir Bjarna hefðu ekki alltaf verið í byrjunarliðinu þegar þeir voru ungir. „Allir þeir sem komu ekki inná eða eru ekki í liðinu eiga að vera fúlir. Svo bara ræðum við þá og sjáum hvernig við leggjum næstu leiki upp."
„Til að klára að ræða Albert: ef við tökum alla leikina frá því að ég tók við þá hefur Albert örugglega spilað 95% þeirra," sagði Arnar að lokum.
Albert er 24 ára gamall og hefur spilað 31 landsleik. Hann er leikmaður Genoa á Ítaliu.
Athugasemdir