Stefán Gunnlaugsson skrifar
Núna um miðjan júní var tekinn í notkun glæsilegur gerfigrasvöllur á KA svæðinu. Tel ég að sú stund verði talin ein af fjórum stærstu í sögu KA, hvað framkvæmdir varða. Vil ég hér með leyfa mér að þakka L-lista fólki og öðrum bæjarfulltrúum, sem studdu þetta.
Einnig vil ég vekja athygli á hvað allir sem komu að þessu stóðu sig framúrskarandi vel, allt frá framkvæmdadeild Akureyrarbæjar, til undirverktaka. Aðalverktaki var Guðmundur Hjálmarsson og hans fólk og fá þeir sérstakt lof fyrir að ljúka þessu á 5 mánuðum, að mestu að vetri til. Þar sem að nýliðinn vetur var líklega sá erfiðasti frá 1995, má segja að þetta hafi verið hreint framúrskarandi verk. Ekki er það síðra að allt bendir til að framkvæmdin standist fjárhagsáætlun en það ekki mjög algengt, þegar um opinberar byggingar er að ræða. Það segir okkur hins vegar hversu mikilvægt er að láta ekki framkvæmdir taka mörg ár.
Allir sem prófað hafa völlinn eru yfir sig ánægðir með hann, svo og allan frágang norðan við völlinn að KA heimilinu. Eina sem ég held að þyrfti að endurskoða er að girðing sunnan við völlinn er ekki nógu há, því þegar yngri flokkar æfa og spila þvert á völlinn er hætt við að boltinn lendi alloft sunnan við girðingu, veit ég að þetta verður lagað.
Nýtt upphaf
Ég hef áður tæpt á því að þetta væri ein fjórum stærstu framkvæmdum í sögu KA. Tel ég þó að þetta sé sú markverðasta, hvað fótboltann varðar. Segja má að þetta sé nýtt upphaf og menn muni hugsa; hvernig gátum við haldið úti öllum þessum flokkum, þar sem við höfðum ekki velli nema ca 10 vikur á ári, en að sjálfsögðu hefur Boginn hjálpað mikið til yfir veturinn.
Jafnast þessi framkvæmd fyrir fótbóltann á við það þegar íþróttahúsið var byggt 1991 og gjörbreytti aðstöðu fyrir inniíþróttir í KA. Tel ég að þá eins og nú hafi verið slegið met í framkvæmdahraða, en kraftaverkamanninum Sigurði Sigurðssyni (SS Byggi) tókst að stýra þeirri framkvæmd í blandaðri framkvæmd verktaka og fjölda sjálfboðaliða, þannig að sú bygging, sem er nærri 3000 fermetrar reis og var tekin í notkun á 199 dögum. Held ég að það jarðri við Íslandsmet.
Þetta gerðist í formannstíð Sigmundar Þórissonar og var hann jafnframt formaður byggingarnefndar. Bærinn var til í að leggja fram 75%, en þó eingöngu af 2200 fermetrum, þannig að KA þurfti ekki eingöngu að greiða 25% af 2200 fermetra byggingu heldur að fjármagna alfarið tæplega 700 fermetra í viðbót. Reyndist þetta vera alltof stór biti, því í raun þurfti KA að fjármagna þetta að mestu leiti, þar sem Akureyrarbær greiddi sitt framlag á 5 árum.
Held ég að bæði bæjarstjórn og KA, hafi séð að svona gátu hlutirnir ekki gengið, að áhugamannafélag með takmarkaðar tekjur, væri að fara í framkvæmd og sjá alfarið um hana, framkvæmd sem í dag kostaði líklega um 600-700 milljónir. Ca 15 árum síðar leysti bærinn þetta til sín, enda var þetta frá byrjun einnig skólamannvirki.
Fleiri stórir dagar
Kem ég að síðustu að hinum tveimur stóru dögum í framkvæmdasögu KA. Þykist ég geta tæpt á þeim, þó svo að ég hafi komið að þeim. Eru þessar framkvæmdir frábrugnar, þar sem þær voru svo til eingöngu framkvæmdar af sjálfboðaliðum og að stórum hluta fjármagnaðar með frjálsum framlögum.
Var það fyrra árið 1984, þegar lokið var við að byggja alla velli og girða þá af. Þeir helstu sem að þessum framkvæmdum komu voru Gunnar Jóhannesson, sem sá um allar mælingar og útreikninga og fleira. Held ég að hvorki ég, né aðrir framámenn í KA hafi þakkað Gunnari á sínum tíma og geri ég það hér með, þótt seint sé. Komu fleiri tugir manna að þessu, þó svo að líklega hafi Jóhann Aðalsteinsson (Svanni) og Hermann Sigtryggsson, verið einna drýgstir. Er það athygli vert að á þessum tíma voru þeir allir í krefjandi störfum á daginn, hjá Akureyrarbæ.
Að síðustu ætla ég að minnast á byggingu KA heimilisins, en það reis á 13 mánuðum1985-1986 og gjörbreytti öllu starfi í KA, var þetta í formannstíð Guðmundar Heiðrekssonar en ég var þá gjaldkeri, hafði verið það í nokkur ár á undan og var það líka í nokkur ár á eftir. Þegar við Guðmundur fórum að plana félagsheimilið, voru engir peningar til, en þó nokkrar skuldir vegna vallarframkvæmda, en við áttum inni hjá ÍSÍ peninga vegna þeirra framkvæmda, sem áttu að koma á 2 eða 3 árum. Fórum við engu að síður í að undirbúa byggingu félagsheimilisins. Guðmundur formaður teiknaði og ég tók að mér að safna liði og kynna verkefnið.
Byrjuðum við vorið 1985 og var unnið hvíldarlítið í liðlega ár, það var sama hvert við leituðum, alls staðar var okkur vel tekið. Minnist ég meðal annars eins, sem hringdi í mig, og spurði hvort að hann gæti ekki hjálpað eitthvað, ég tjáði honum að við værum að fara að einangra húsið, en við værum ekki búnir að fjármagna það. Sagði hann strax að hann myndi greiða alla einangrun, sem hann og gerði. Voru fleiri svipuð dæmi. T.d. sá Magnús Ingimundarson, sem þá átti Glerverksmiðjuna Esju í Reykjavík um allt gler í húsið.
KA klúbburinn í Reykjavík undir styrkri stjórn Sæmundar Óskarssonar (Simma í Esju) var ómetnalegur einnig yfirmenn í KEA en þeir komu einnig sterkir inn og leyfðu okkur að taka út efni, sem við fengum að greiða þegar við eignuðumst peninga. Það merkilega var að við skulduðum í raun lítið meira ´86 heldur en við gerðum ´85, þegar við hófum fræmkvæmdir. Vorum við komnir með frábæra byggingu sem var hátt í 600 fermetrar og myndi í dag kosta ca 130 milljónir.
Hefur hún reynst ómetanleg fyrir félagið. Hundruð manna lögðu fram vinnu og eða peninga, þó svo að Sigurður Jakobsson (Diddi) og áður nefndur Svanni, hafi verið sínu drýgstir. Má til gamans geta þess að við héldum aldrei bókaðan fund í byggingarnefnd fyrr en daginn eftir að við tókum heimilið í notkun.
Er ég að rifjað þetta upp núna, því að ég tel það nauðsynlegt, þar sem að allar þessar framkvæmdir, hafa að mínu mati, markað djúp spor í sögu KA og gert KA að því sem það er í dag.
Þakkir
Vil ég að lokum þakka stjórnendum Akureyrarbæjar, fyrir þetta magnaða verk um leið og ég óska stjórn KA og knattspyrnudeildinni til hamingju. Einnig öllu knattspyrnufólki á Akureyri og tel ég þetta vera hreina byltingu hvað aðstöðu varðar. Er gaman, í því sambandi, að sjá núna ungt fólk vera að leika sér á vellinum á kvöldin, eftir að föstum æfingum líkur.
Stebbi Gull. lífeyrisþegi sem ennþá spilar fótbolta.
Athugasemdir