þri 07. janúar 2020 07:30
Ívan Guðjón Baldursson
Solskjær: Taktísk brot mikilvægur partur af leikstíl Man City
Mynd: Getty Images
Ole Gunnar Solskjær kallar eftir því að dómarar fylgist betur með taktískum brotum Manchester City sem virðast vera ómissandi partur af leikskipulagi liðsins undir stjórn Josep Guardiola.

Taktísku brotin eru nauðsynleg svo leikmenn City hafi tíma til að komast til baka þegar andstæðingar þeirra komast í skyndisókn. Fernandinho hefur sinnt þessu hlutverki undanfarin ár að brjóta taktísk af sér um leið og skyndisókn fer af stað.

Dómarar hafa verið ansi ragir við að gefa spjöld fyrir þessi taktísku brot séu þau framin á nógu lúmskan hátt og vill Solskjær breyta því.

„Þetta er mikilvægur partur af þeirra leikstíl. Ég er búinn að horfa á síðustu viðureignir liðanna og það þarf að koma í veg fyrir þessi litlu brot. Þessi litlu brot koma í veg fyrir að við getum sótt eins og við viljum," sagði Solskjær.

„Dan James er gott dæmi um leikmann sem lendir í mikið af þessum taktísku brotum. Dómarar verða að hafa auga með þessu og gefa gult spjald þegar svona gerist, það gengur ekki að leikmenn komist hjá því trekk í trekk að fá refsingu fyrir taktísk brot."
Athugasemdir
banner