Marseille er að ganga frá kaupum á úkraínska sóknartengiliðnum Ruslan Malinovskyi frá Atalanta.
Malinovskyi rennur út á samningi næsta sumar og því fær franska félagið að kaupa þennan öfluga leikmann á útsöluverði - eða 10 milljónir evra.
Miðjumaðurinn sóknarsinnaði fer til Marseille á lánssamningi með kaupskyldu sem virkjast í júní, nokkrum vikum áður en samningurinn við Atalanta rennur út.
Malinovskyi er 29 ára gamall og hefur verið hjá Atalanta í þrjú og hálft ár. Á þeim tíma hefur hann skorað 30 mörk og lagt önnur 28 upp í 140 leikjum.
Marseille hefur verið iðið við að styrkja leikmannahópinn sinn undanfarin misseri. Matteo Guendouzi, Pau Lopez, Jordan Veretout og Jonathan Clauss eru meðal nýrra leikmanna félagsins ásamt Eric Bailly, Alexis Sanchez og fleirum.
Liðið er í þriðja sæti frönsku deildarinnar með 36 stig eftir 17 umferðir, átta stigum eftir stórveldi PSG sem trónir á toppinum.