Freyr Alexandersson, þjálfari Leiknis, var kampakátur eftir sigur liðsins á Val í undanúrslitum Reykjavíkurmótsins í kvöld. 1. deildarliðið vann í vítaspyrnukeppni eftir markalaust jafntefli eftir 90 mínútur.
Lestu um leikinn: Valur 1 - 4 Leiknir R.
„Ég er ánægður fyrir hönd strákana. Að fara í úrslitaleik á eigin verðleikum. Það var dugnaður og vilji og ég er mjög stoltur," sagði Freyr eftir leik.
Leiknir hefur aðeins fengið eitt mark á sig á mótinu.
„Það er frábært. Við erum ekki að fá mörg færi á okkur heldur. Það er klárt mál að við erum ryðgaðir sóknarlega en við erum að fókusera á það að laga varnarleikinn. Leiknir hefur síðustu ár verið að fá of mörg mörk á sig."
Leiknisliðið er mikið breytt frá síðasta tímabili en hlutirnir virðast vera að smella vel saman.
„Menn eru líka að hafa fyrir því. Þetta gerist ekki af sjálfu sér. Það hafa orðið breytingar en það byrjuðu tíu uppaldir Leiknismenn leikinn í dag. Það er að hjálpa okkur helling. Ég er ekki að segja að það sé eina leiðin en það er að hjálpa okkur núna."
„Við vorum tilbúnir í slag. Valsmenn eru nautsterkir. Við þurftum að slást meira og gerðum það."
Viðtalið má sjá í heild í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir























