Chelsea býst við að landa Guehi - Risaverðmiði á Isak - Mikill áhugi á Mateta
   fös 07. febrúar 2025 15:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Finnur um bróður sinn: Hann er ótrúlegur
Viktor og Finnur Orri.
Viktor og Finnur Orri.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Viktor Örn varð Íslandsmeistari með Breiðabliki á síðasta tímabili.
Viktor Örn varð Íslandsmeistari með Breiðabliki á síðasta tímabili.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Finnur Orri Margeirsson lagði skóna á hilluna á dögunum eftir mjög farsælan feril. Hann náði þeim áfanga að spila með yngri bróðir sínum, Viktori Erni Margeirssyni, á ferlinum og var hann mjög ánægður að ná því.

„Ég er mjög glaður að það hafi tekist. Við náðum einhverjum æfingum saman og leikjum þegar hann var að koma upp og 2021 náum við líka að spila saman. Sem betur fer. Það hefði ekki verið jafngott að fara í gegnum ferilinn ef við hefðum ekki náð því," sagði Finnur við Fótbolta.net.

Hann er mjög stoltur af bróður sínum og segir hann mikla fyrirmynd fyrir yngri iðkendur. Viktor hefur verið stór partur af liði Breiðabliks síðustu árin.

„Ég er rosalega stoltur af honum. Hann er ótrúlegur," segir Finnur.

„Hann fær ekki það hrós sem hann á skilið fyrir það hvernig hann hefur þróað sinn feril og á hvaða stað hann er kominn. Hann hefur fengið sinn skerf af mótlæti og aldrei gengið að sínu hlutverki vísu. Hann hefur alltaf unnið fyrir því og jafnvel margfalt meira en margir aðrir. Fyrst og fremst er hann einhver seigasti maður sem ég þekki. Ég er fyrst og fremst bara stoltur af honum og hvernig hann hefur þróað sig áfram. Hann er búinn að vera burðarstólpi í Breiðabliki í gegnum þessa titla og Evrópuleiki sem þeir hafa spilað. Hann hefur vaxið með hverju árinu sem leikmaður og persóna."

Viktor átti frábært tímabil í fyrra og var valinn í lið ársins fyrir frammistöðu sína er Breiðablik varð Íslandsmeistari.

„Hann hefði oft áður getað verið í liði ársins en ég er kannski ekki alveg hlutlaus þar. Hann átti það fyllilega skilið núna. Aftur, ég er fyrst og fremst stoltur af honum. Hann er búinn að vinna svo margfalt að því að komast á þann stað sem hann er á í dag," sagði Finnur og bætti við:

„Ég vil bæta því við líka ef við tökum þetta í aðeins stærra samhengi. Það er ómetanlegt fyrir yngri leikmenn að geta horft til Viktors. Hann hefur spilað A-landsleik án þess að hafa spilað marga yngri landsleiki. Það verða ekkert allir heimsmeistarar á einni nóttu. Mér finnst hann frábær fyrirmynd fyrir yngri leikmenn að horfa upp til."

Bræðurnir tala saman eftir hvern einasta leik og það mun ekkert breytast þó Finnur sé búinn að leggja skóna á hilluna. Hann mun áfram fylgjast náið með bróður sínum og hvetja hann til dáða.
Athugasemdir
banner
banner