Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   þri 07. mars 2023 11:20
Elvar Geir Magnússon
Spenna í loftinu - Svona er staðan fyrir seinni leiki 16-liða úrslita Meistaradeildarinnar
 Jude Bellingham greip í spil í flugvélinni þegar lið Dortmund fór yfir til London.
Jude Bellingham greip í spil í flugvélinni þegar lið Dortmund fór yfir til London.
Mynd: Getty Images
Hvað gerir Mbappe í München?
Hvað gerir Mbappe í München?
Mynd: EPA
Karim Benzema.
Karim Benzema.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í kvöld fara seinni leikir 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar af stað. Áfram er haldið með sama kerfi, tveir leikir verða í kvöld og tveir annað kvöld. Hinir fjórir leikirnir verða svo spilaðir í næstu viku.

Rifjum upp hvernig staðan er í einvígunum:

Í KVÖLD

20:00 CHELSEA - BORUSSIA DORTMUND (0-1)
Chelsea skapaði sér slatta af færum í fyrri leiknum en eins og oft áður gekk þeim illa að nýta þau. Karim Adeyemi skoraði eina markið í fyrri leiknum. Chelsea kemur inn í þennan leik eftir 1-0 sigur gegn Leeds í deildinni, fyrsti sigur liðsins í sex leikjum.

Dortmund er á sigurbraut og hefur unnið alla tíu leiki sína síðan þýski boltinn fór af stað aftur eftir HM. Um liðna helgi vann liðið 2-1 sigur í toppslag gegn RB Leipzig.

20:00 BENFICA - CLUB BRUGGE (2-0)
Scott Parker og lærisveinar í Club Brugge voru yfirspilaðir í fyrri leiknum. Brugge hefur aðeins unnið tvo af ellefu leikjum síðan Parker tók við og það ætti að vera þægilegt verk fyrir Benfica að klára dæmið í kvöld.

ANNAÐ KVÖLD

20:00 BAYERN MÜNCHEN - PARIS SAINT-GERMAIN (1-0)
Þýskalandsmeistararnir voru talsvert betra liðið í fyrri leiknum en fara með nauma forystu á heimavöll sinn eftir mark Kingsley Coman. Kylian Mbappe hélt að hann hefði jafnað leikinn en dæmd var rangstaða.

Bæjarar hafa ekki verið ýkja sannfærandi í deildinni heima, miðað við það sem við eigum að venjast frá þeim. Benjamin Pavard verður ekki með á morgun vegna leikbanns og hjá PSG spilar Neymar ekki meira á tímabilinu vegna meiðsla. PSG er með yfirburði í frönsku deildinni og munu Kylian Mbappe og Lionel Messi leiða sóknarlínu liðsins á morgun.

20:00 TOTTENHAM HOTSPUR - AC MILAN (0-1)
Brahim Díaz skoraði eina mark fyrri leiksins. Antonio Conte er mættur aftur á hliðarlínuna og Tottenham þarf á því að halda að sóknarleikmennirnir Harry Kane, Son Heung-min og Dejan Kulusevski verði í stuði. Það er erfitt að giska á hvaða útgáfu af Spurs við fáum að sjá á morgun. AC Milan kemur inn í þennan leik eftir að hafa tapað fyrir Fiorentina um liðna helgi.

ÞRIÐJUDAGUR 14. MARS

20:00 FC PORTO - INTER MILAN (0-1)
Romelu Lukaku skoraði eina markið í fyrri leiknum. Inter er í öðru sæti ítölsku A-deildarinnar en er langt á undan Napoli sem hefur stungið af. Í portúgölsku deildinni er Porto átta stigum á eftir Benfica.

20:00 MANCHESTER CITY - RB LEIPZIG (1-1)
Leikmenn City voru sárir og svekktir yfir því að fara ekki með sigur af hólmi í fyrri leiknum. Riyad Mahrez kom City yfir en Josko Gvardiol reis hæst í teignum og jafnaði með öflugum skalla. City er samt kkárlega sigurstranglegra liðið fyrir seinni leikinn sem verður í Manchester.

MIÐVIKUDAGUR 15. MARS

20:00 NAPOLI - EINTRACHT FRANKFURT (2-0)
Napoli fer með himinskautum í ítölsku deildinni og vann 2-0 í Frankfurt. Liðið er komið með annan fótinn í 8-liða úrslit. Victor Osimhen kom Napoli yfir og Giovani di Lorenzo tvöfaldaði forystuna eftir að Randal Kolo Muani fékk rauða spjaldið.

20:00 REAL MADRID - LIVERPOOL (5-2)
Fyrri leikurinn var hreint ótrúlegur og Liverpool fékk í fyrsta sinn á sig fimm mörk í Evrópuleik á Anfield. Liverpool komst tveimur mörkum yfir áður en miskunnarlausir Madrídingar fóru af stað. Vinicius Junior og Karim Benzema skoruðu tvö mörk hvor.

Real Madrid ætti að sigla örugglega áfram en eftir 7-0 sigur Liverpool gegn Manchester United, hver segir það ómögulegt að Liverpool framkvæmi kraftaverk í Madríd?
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner