lau 07. maí 2022 18:08
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: Tíu leikmenn Keflavíkur náðu í stig undir lokin
Keflavík náði í fyrsta stigið í dag
Keflavík náði í fyrsta stigið í dag
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Adam Árni Róbertsson gerði jöfnunarmarkið seint í uppbótartíma
Adam Árni Róbertsson gerði jöfnunarmarkið seint í uppbótartíma
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Keflavík 3 - 3 ÍBV
1-0 Josep Arthur Gibbs ('22 )
2-0 Rúnar Þór Sigurgeirsson ('30 )
2-1 Andri Rúnar Bjarnason ('52 )
2-2 Telmo Ferreira Castanheira ('64 )
2-3 Sigurður Arnar Magnússon ('82 )
3-3 Adam Árni Róbertsson ('90 )
Rautt spjald: Magnús Þór Magnússon, Keflavík ('35)
Lestu um leikinn

Keflavík og ÍBV gerðu 3-3 jafntefli í 5. umferð Bestu deildar karla á HS Orkuvellinum í dag. Keflvíkingar náðu inn jöfnunarmarki seint í uppbótartíma.

Keflvíkingar komust yfir á 22. mínútu. Adam Ægir Pálsson fann Nacho Heras í hlaupinu, hann kom með fallega fyrirgjöf með jörðinni og til Joey Gibbs sem skoraði.

Heimamenn tvöfölduðu forystuna átta mínútum síðar og nú var það Rúnar Þór Sigurgeirsson eftir sendingu frá Adam Ægi. Góð forysta sem Keflvíkingar voru komnir með en liðið varð fyrir áfalli tíu mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks.

Magnús Þór Magnússon, fyrirliði Keflavíkur, var á gulu spjaldi en ákvað að toga í Andra Rúnar Bjarnason sem hljóp á eftir boltanum og fékk því sitt annað gula spjald og þar með rautt.

Undir lok fyrri hálfleiks var Adam nálægt því að bæta við þriðja markinu og koma Keflvíkingum í þægilega stöðu inn í hálfleikinn en skot hans fór í stöng.

Andri Rúnar Bjarnason minnkaði muninn á 50. mínútu eftir að hann slapp í gegn. Nacho náði aðeins að stugga við honum en Andri náði að koma fætinum í boltann og í netið.

Telmo Castanheira jafnaði síðan metin á 64. mínútu. Sindri Kristinn Ólafsson varði fyrst skot frá Felix Erni Friðrikssyni áður en boltann barst út á Telmo sem skaut föstu skoti í bláhornið.

Þegar átta mínútur voru eftir af leiknum skoraði Sigurður Arnar Magnússon þriðja mark Eyjamanna. Keflvíkingar björguðu fyrst á línu eftir mikinn darraðadans í teignum áður en Guðjón Pétur Lýðsson kom boltanum aftur fyrir og á Sigurð sem skóflaði boltanum yfir línuna.

Keflvíkingar keyrðu á Eyjamenn síðustu mínúturnur og vildu í tvígang fá víti en fengu ekki. Þrátt fyrir mikið mótlæti kom jöfnunarmarkið og var það Adam Árni Róbertsson sem gerði það með skalla út við stöng.

Lokatölur 3-3 og fyrsta stig Keflvíkinga staðreynd. ÍBV er með tvö stig eftir fyrstu fimm leikina á meðan Keflavík er nú með eitt stig en liðið tapaði fyrstu fjórum leikjum tímabilsins.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner