banner
   þri 07. desember 2021 18:45
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Man Utd ræður hugarþjálfara í fyrsta sinn í 30 ár
Rangnick er að breyta til.
Rangnick er að breyta til.
Mynd: EPA
Ralf Rangnick er búinn að bæta við tveimur mönnum í þjálfarateymi sitt hjá Manchester United.

Það var sagt frá því í gær að Chris Armas væri að koma inn í teymið. Sá er 49 ára gamall fyrrum landsliðsmaður Bandaríkjanna. Hann var stjóri Toronto í MLS-deildinni en var rekinn þaðan í júlí. Áður stýrði hann New York Red Bulls í tvö ár.

Hinn maðurinn sem kemur inn í teymið er Sascha Lense. Hann er íþróttasálfræðingur.

Fram kemur á Daily Mail að Lense sé fyrsti íþróttasálfræðingurinn sem mun starfa fyrir Man Utd í fullu starfi í 30 ár. Sá síðasti var Bill Beswick sem starfaði hjá félaginu í kringum 1990. Rangnick vann með Lense hjá RB Leipzig.

„Ég veit ekki hvernig staðan er hér og í öðrum félögum, en í Þýskalandi eru flest félög með starfandi íþróttasálfræðing - eða hugarþjálfara, hvað sem þú vilt kalla þá," sagði Rangnick við fréttamenn.

„Fyrir mér er þetta algjörlega rökrétt. Ef þú ert með sérstaka þjálfara fyrir markvörslu, líkamsþjálfun, jafnvel fyrir framherja - hvað sem er - þá ættirðu líka að hafa þjálfara fyrir heilann."

„Fyrir mér snýst þetta um að hjálpa leikmönnunum að átta sig á því að heilinn eigi að aðstoða líkamann, ekki að vinna gegn honum," segir Rangnick.

Hann sagðist vona það að Lense muni hefja störf í síðasta lagi á fimmtudaginn. Hann kemur væntanlega til með að vinna að því að styrkja hugarfarið í hópnum.

Sjá einnig:
Hugleiðsla fyrir æfingar hjá langbesta liði Noregs


Enski boltinn - Lundúnarþema og baráttan um fimmta sætið
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner