Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mið 07. desember 2022 09:50
Elvar Geir Magnússon
Nýja HM stjarnan lék á Íslandi í fyrra - „Erfitt að eiga við hann“
Goncalo Ramos á Víkingsvelli.
Goncalo Ramos á Víkingsvelli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Davíð Snorri Jónasson, þjálfari U21 landsliðs Íslands.
Davíð Snorri Jónasson, þjálfari U21 landsliðs Íslands.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það ráku margir upp stór augu þegar þeir sáu að Goncalo Ramos væri í byrjunarliði Portúgals gegn Sviss í 16-liða úrslitum HM, hann tók sæti ofurstjörnunnar Cristiano Ronaldo sem var settur á bekkinn.

Ramos, sem er 21 árs, varð að nýrri HM stjörnu því hann skoraði þrennu í 6-1 sigri portúgalska liðsins.

Davíð Snorri Jónasson, þjálfari U21 landsliðs Íslands, var í HM hringborðinu hér á Fótbolta.net og ræddi um sóknarmanninn unga sem stal senunni í gær.

Davíð þekkir það að mæta Ramos sem var í U21 landsliði Portúgals sem var í riðli með Íslandi í undankeppni EM. Hann lék í 1-0 sigri portúgalska liðsins á Víkingsvelli í október í fyrra og skoraði svo í 1-1 jafntefli liðanna í Portúgal fyrr á árinu.

Hann er stórhættulegur
„Ég skal alveg viðurkenna að það fyrsta sem ég hugsaði þegar við vorum að mæta honum var ekki að hann ætti eftir að skora þrennu í 16-liða úrslitum HM. Hann spilaði báða leikina á móti okkur og skoraði úti í Portúgal," segir Davíð Snorri.

„Hann er fjölhæfur leikmaður, kraftmikill og með góð hlaup. Hann er eitraður þegar hann kemst í nálægð við markið. Hann lætur hafa hrikalega mikið fyrir sér. Það er erfitt að eiga við hann. Portúgalska U21 landsliðið spilar með tvo sentera sem eru utarlega og virka sem hálfgerðir kantmenn og það var erfitt að eiga við hann."

„Þegar við vorum að undirbúa leikina var lögð áhersla á að reyna að láta hann ekki 'feisa' neitt markið okkar. Hann er stórhættulegur. Það er frábært að sjá strák sem spilaði í mars með U21 landsliðinu vera í dag að skora í 16-liða úrslitum á HM."

Ramos spilar fyrir Benfica og kom í gegnum unglingastarfið hjá félaginu en fyrir leikinn í gær hafði hann aðeins spilað 33 mínútur með A-landsliði Portúgals. Cristiano Ronaldo hefur aldrei skorað í útsláttarkeppni HM en Ramos er þegar kominn með þrjú mörk.

Í þættinum var rætt um það hvort Ronaldo myndi hreinlega spila annan byrjunarliðsleik á mótinu?

Hlustaðu á HM hringborðið í spilaranum hér að neðan eða í gegnum hlaðvarpsforritið þitt
HM hringborðið - Karnival í Katar og Spánn fær ekki að vera með
Athugasemdir
banner
banner