
Guðný Árnadóttir og Alexandra Jóhannsdóttir áttust við í 8-liða úrslitum ítalska bikarsins í dag og voru þær báðar í byrjunarliðum.
Guðný byrjaði í hægri bakvarðarstöðunni hjá Milan sem leiddi 1-0 eftir fyrri viðureign liðanna á meðan Alexandra byrjaði á miðjunni hjá Fiorentina. Báðar léku þær allan leikinn.
Sænska landsliðskonan Kosovare Asllani kom Milan yfir í fyrri hálfleik en Fiorentina tókst að jafna. Gestunum frá Flórens vantaði þó eitt mark til að knýja leikinn í framlengingu en það kom ekki. Guðný og stöllur fara því áfram í undanúrslitin.
Sara Björk Gunnarsdóttir var þá í byrjunarliði Juventus og spilaði fyrstu 57 mínúturnar í 3-0 sigri gegn Chievo. Juve fer því örugglega áfram eftir samskonar sigur í fyrri viðureign liðanna.
Anna Björk Kristjánsdóttir var ekki í hóp hjá Inter sem fékk Sampdoria í heimsókn eftir að hafa unnið fyrri leikinn á útivelli 3-2. Inter rúllaði yfir Samp í fyrri hálfleik og var staðan 3-0 í leikhlé, eða 6-2 í heildina.
Gestirnir frá Genúa voru þó ekki á því að gefast upp. Þær skiptu um nokkra gíra í seinni hálfleik og skoruðu fjögur mörk til að koma viðureigninni í framlengingu, enda staðan orðin 6-6. Þaðan fór leikurinn í vítaspyrnukeppni og var hún ekki af verri endanum.
Bæði lið klúðruðu einni spyrnu af fyrstu fimm en að lokum vann Inter í bráðabana.
Milan 1 - 1 Fiorentina (2-1 samanlagt)
Inter 3 - 4 Sampdoria (4-4 samanlagt)
5-4 í vítaspyrnukeppni
Juventus 3 - 0 Chievo (6-0 samanlagt)
Roma 2 - 0 Pomigliano (10-1 samanlagt)