
Fyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir var ánægð með spilamennsku Íslands við erfiðar aðstæður í Dublin í kvöld en var um leið svekkt að hafa ekki náð að landa sigri.
Lestu um leikinn: Ísland 0 - 0 Írland
„Það var svolítið svekkjandi að fá ekki þrjú stig því við spiluðum rosalega vel við erfiðar aðstæður hér í dag. En það er margt rosalega jákvætt sem við getum tekið með okkur úr leiknum.“
Aðspurð um það hvað henni fannst ganga vel hjá íslenska liðinu svaraði Sara Björk:
„Hvernig við spiluðum boltanum á milli okkar og hvað við þorðum að halda í boltann en það vantaði kannski eitthvað í sóknarleikinn á síðasta þriðjungi. Að klára færin og skora fleiri mörk.“
Ísland spilaði í 3-4-3 í kvöld og Söru Björk fannst það koma vel út.
„Mér fannst það koma mjög vel út. Við erum búin að funda hérna dag eftir dag og allar búnar að fá pappíra og glærusjóv til að fara eftir. Allar stóðu sig í sínu hlutverki og allar áttu flottan leik í dag.“
Íslenska liðið var gagnrýnt eftir tapið gegn Hollandi í síðasta vináttuleik en þá virkaði liðið andlaust og mikið vantaði upp á hugarfarið. Sara Björk segir liðið sitt hafa brugðist vel við í dag.
„Við stigum allar upp. Við vissum alveg hversu andlausar og yfir höfuð lélegar við vorum á móti Hollandi og við svöruðum svolítið fyrir það í dag.“
Nánar er rætt við fyrirliðann í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir