Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fim 08. júní 2023 15:55
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Ekki byrjunin sem búist var við hjá Selfossi - „Þetta er óvænt"
Selfoss fagnar marki í sumar.
Selfoss fagnar marki í sumar.
Mynd: Hrefna Morthens
Brenna Lovera í leik með Selfossi.
Brenna Lovera í leik með Selfossi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik FH og Selfoss í vikunni.
Í leik FH og Selfoss í vikunni.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Selfoss hefur farið afar erfiðlega af stað í Bestu deild kvenna í sumar. Liðinu var spáð um miðja deild en situr á botninum eftir fyrstu sjö umferðirnar með aðeins fjögur stig.

„Það var enginn að sjá þetta fyrir sér. Hins vegar er þetta ekki búið að vera áfallalaust hjá okkur í aðdragandanum og það eru ágætis skýringar á ýmsu í þessu, af því sögðu þá teljum við okkur vera með hóp sem á að gera meira og það er nóg eftir af þessu móti, við þurfum að halda okkur þjöppuðum og vaða þetta," sagði Björn Sigurbjörnsson, þjálfari Selfoss, eftir 2-0 tap gegn nýliðum FH í síðasta leik.

Rætt var um Selfossliðið í síðasta þætti af Heimavellinum sem var tekinn upp eftir sjöundu umferðina.

„Hver átti von á því að sjá þær með fjögur stig á botninum eftir sjö umferðir?" spurði Mist Rúnarsdóttir í þættinum.

„Þetta er mikið þrot. Við ræddum það fyrir þátt að þær voru í öðru sæti eftir jafn margar umferðir í fyrra og í þriðja sæti árið á undan. Þetta er óvænt," sagði Elíza Gígja Ómarsdóttir í þættinum en Selfoss var með 14 stig eftir sjö umferðir í fyrra.

„Það er rosalega stór biti að missa Brennu Lovera og Miröndu Nild, sem mér fannst frábær leikmaður. Emelía Óskarsdóttir er gríðarlegt efni en þú getur ekki ætlast til að hún fylli í þessi skörð," sagði Jón Stefán Jónsson.

Tveir erlendir leikmenn sem voru fengnir til félagsins í vetur fóru heim rétt fyrir mót. Það var ekki ákjósanlegt eins og Björn, þjálfari liðsins, kom inn á í samtali við Vísi á dögunum. „Við byggjum okkar sóknarleik í vetur upp á það að vera með framherja sem að við fengum frá Bandaríkjunum. Hún fór svo heim og við það riðlast svolítið leikplanið okkar og við erum bara að reyna að vinna okkur út úr því. Það er búið að taka lengri tíma en ég vonaðist til," sagði Björn.

„Þær lenda í því að missa erlenda leikmenn heim. Hvernig sem það var, þá er það ekki gott mál. Það er alveg á tæru," sagði Jón Stefán og hélt áfram: „Við megum samt ekki gleyma því að það eru fleiri leikir í þessari deild en nokkru sinni áður. Menn geta andað með nefinu enn þá."

„Engu að síður þá eru sjö leikir komnir, einn sigur og það var heima gegn Tindastóli. Þær eru búnar að skora fimm mörk en Brenna Lovera er búin að vera einn besti senterinn í þessari deild síðustu ár. Við vissum að það að það væri engin að fara hoppa beint í hennar skó," sagði Mist. „Þetta er ekki bara búið að vera stöngin út hjá Selfossi, það hljóta að hringja viðvörunarbjöllur."

„Það er lítið sjálfstraust og það vantar aðeins meiri gæði á þennan síðasta þriðjung," sagði Jón Stefán. „Það er erfitt að vinna fótboltaleiki þegar þú skorar ekki mörk. Þetta eru vandræði í allar áttir," sagði Elíza Gígja í þættinum sem hægt er að hlusta á í heild sinni hér að neðan.

Selfossliðið, sem á að geta betur en taflan segir til um, á leik næst gegn Þór/KA á útivelli á laugardaginn. Verður það mjög fróðlegur leikur, en bæði þessi lið hafa átt í miklum vandræðum sóknarlega á tímabilinu.
Heimavöllurinn: Það þarf að þora til að skora
Athugasemdir
banner
banner
banner