„Geggjað að koma á Akureyri að klára þetta," sagði Agla María leikmaður Breiðabliks eftir sigur liðsins á Þór/KA á Akureyri í dag.
Lestu um leikinn: Þór/KA 0 - 3 Breiðablik
„Við vissum að grasið væri ekki upp á sitt besta þannig það þýddi ekkert að spila endalaust út úr vörninni. Við vorum meðvitaðar um það og nýttum okkar styrkleika og vorum duglegar að senda boltann langan í dag og það virkaði," sagði Agla María.
Agla María skoraði eitt og lagði upp annað. Hún var gríðarlega ánægð með frammistöðu liðsins í heild sinni.
„Mér fannst frammistaða liðsins heilt yfir mjög góð. Mín frammistaða var ekki betri en einhvers annars í liðinu. Við vorum að vinna fyrir hvor aðra, þetta var skilgreiningin á liðssigri," sagði Agla María.
Það hefur snjóað á Akureyri undanfarna daga og aðstæður á vellinum ekki upp á sitt besta. Það truflaði Öglu Maríu ekki.
„Hann er í raun ekkert verri en þegar maður kemur á Akureyri ef ég er alveg hreinskilin. Eins og fréttaflutningur hefur verið bjóst ég við einhverju óveðri hérna. Þetta var fullkomið fótboltaveður og ágætis aðstæður, ekki yfir neinu að kvarta," sagði Agla María að lokum.