Mbeumo, Wirtz, Diomande, Quenda, Nypan, Van Nistelrooy, Cherki og fleiri góðir í slúðri dagsins
   fös 08. nóvember 2024 13:50
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Útskýrir viðskilnað sinn við Val - „Hef fengið ótrúlega mikið af skemmtilegum tilboðum"
'Það er mín tilfinning að félög geti gert betur í að halda konum nálægt sér'
'Það er mín tilfinning að félög geti gert betur í að halda konum nálægt sér'
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
'Þetta var einhver besti skóli sem maður getur fengið í fyrsta giggi í þjálfun'
'Þetta var einhver besti skóli sem maður getur fengið í fyrsta giggi í þjálfun'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Vann náið með Berki.
Vann náið með Berki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Vann tvennuna sem leikmaður Vals tímabilið 2022.
Vann tvennuna sem leikmaður Vals tímabilið 2022.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gísli Þór Einarsson, Hallgrímur Heimisson og Adda voru í þjálfarateymi Vals.
Gísli Þór Einarsson, Hallgrímur Heimisson og Adda voru í þjálfarateymi Vals.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Matthías Guðmundsson mættur aftur á Hlíðarenda.
Matthías Guðmundsson mættur aftur á Hlíðarenda.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Eins og staðan er í dag er ég óákveðin hvað ég geri," segir Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, Adda, sem var í þjálfarateymi Vals síðustu tímabil. Hún lagði skóna á hilluna eftir farsælan feril þegar tímabilinu 2022 lauk, hún lék lengst af með Stjörnunni en tók síðustu fjögur árin með Val og fór svo í teymið. Hún var aðstoðarþjálfari hjá Pétri Péturssyni sem hætti í lok síðasta mánaðar.

„Eftir að það kom í ljós að Pétur yrði ekki áfram í Val þá var fyrsta hugsun að fara sjálf í frí. Svo líða dagarnir og ég finn að ég er strax byrjuð að sakna þess að eiga í samtölum við leikmenn og stjórnir, í teymisvinnu. Ég er aðeins að skoða málin, hugsa hvað mig langar að gera og sjá hvað er í boði," segir Adda.

„Það kom mér mikið á óvart að Pétur yrði ekki áfram þjálfari Vals, hann er náttúrulega sigursælasti þjálfari í sögu Vals og á að mínu mati nóg eftir í þjálfun. Við vorum alveg búin að ræða hlutina, það voru sögur um að hann ætlaði að hætta og við áttum í góðu samtali."

„Það var svolítið ljóst þegar hann hætti að við sem störfuðum með honum yrðum ekki áfram. Það fer allt teymið nema Jói styrktarþjálfari. Ég hef haft unun af því að starfa með Pétri og var sjálf farin að pæla í tímanum eftir Pétur hjá sjálfri mér. Þetta var einhver besti skóli sem maður getur fengið í fyrsta giggi í þjálfun."


Ný stjórn vildi gera breytingar
Af hverju var það ljóst að þið yrðuð ekki áfram?

„Það kom ný stjórn, Börkur (fyrrum formaður) stígur til hliðar og hans menn fara úr stjórn. Það eru tveir eftir úr gömlu stjórninni. Nýja stjórnin sér bara hlutina öðruvísi og ætluðu að gera ákveðnar breytingar. Þau fá inn Kristján og Matta og ég er sérstaklega ánægð að sjá Matta koma aftur, hann þekkir kröfurnar hjá Val og kröfurnar sem stelpurnar í liðinu setja á það að vera í Val. Ég held og vona að hann og Kristján muni gera góða hluti."

„Það var ágætis aðdragandi. Þremur vikum eftir að Íslandsmótinu lauk kemur í ljós að Pétur yrði ekki áfram. Það leið svolítið langur tími þangað til að ég heyrði í stjórn og ég fann strax að ég myndi ekki vinna með nýrri stjórn. Samtalið við Björn (nýjan formann) var ekki langt og ljóst að ég yrði ekki áfram í Val."


Finnst félög geta gert betur
Adda hefur verið nokkuð áberandi í kringum Valsliðið og það eru ekki margar áberandi kvenfyrirmyndir þegar kemur að þjálfurum í íslenska boltanum. Það væri því missir að missa hana úr boltanum.

„Það var góður maður sem sagði við mig að ég myndi tengjast klúbbunum sem ég væri hjá allt of mikið. Ég mun alltaf vera þannig. Ég er gríðarlega mikill Valsari og elskaði að taka samtöl við þá frábæru þjálfara sem eru hjá Val t.d. Gústa, Finn og Óskar Bjarna. Ég lærði mjög mikið af því að vera þarna og bar merki Vals með stolti, fannst ótrúlega gaman að taka þátt í uppbyggingunni aftur eftir lægð hjá kvennaliðinu."

„Mér finnst mikilvægt fyrir öll félög að hafa sterkar fyrirmyndir. Það er mín tilfinning að félög geti gert betur í að halda konum nálægt sér, hvort sem það er í þjálfun eða öðru tengdu fótbolta."


Langar að verða aðalþjálfari einhvern tímann
Langar Öddu að verða aðalþjálfari í framtíðinni?

„Ég hef oft hugsað þetta. Það eru margir aðstoðarþjálfarar sem þrá það að verða aðalþjálfarar. Á tíma mínum með Pétri þá fannst mér mitt hlutverk hrikalega skýrt innan okkar teymis og mér fannst frábært að vera í því hlutverki. Mig langar að vera aðalþjálfari einhvern tímann, en eins og staðan er núna er ég ekki að horfa í það að taka við einhverju liði. Ég er ung í þjálfaraheiminum og fór beint úr mínum ferli sem fótboltakona að þjálfa strax. Það tekur mikinn tíma að vera leikmaður og tekur miklu meiri tíma að vera þjálfari. Ef ég myndi verða aðalþjálfari þá myndi ég gera það að mínu aðalstarfi," segir Adda sem er í dag í fullu starfi hjá Kópavogsbæ.

Ein besta ákvörðun ævinnar
Sem leikmaður hjá Val vann Adda deildina þrisvar og bikarinn einu sinni. Sem hluti af þjálfarateyminu vann hún deildina einu sinni og bikarinn einu sinni.

Hvernig gerir hún upp tímann hjá Val?

„Hrikalega góður tími, það var ein mín besta ákvörðun að hafa farið yfir í Val 2019. Bæði að spila með öllum þessum leikmönnum, upplifa hvernig svona stórt félag virkar og andrúmsloftið ótrúlega gott. Ég, bæði sem leikmaður og þjálfari, vann náið með Berki og hans stjórnarteymi. Það eru forréttindi að hafa fengið að kynnast því. Að vera í svona félagi þar sem gerðar eru kröfur á að unnir séu titlar þvert á kyn og deildir, það hefur verið upplifun. Að fá að snerta á því hvernig hinir þjálfararnir hjá félaginu vinna, þetta hefur verið eins og háskólanám fyrir mig. Ég naut þess gríðarlega líka að spila með Val."

„Þetta var ótrúlega ánægjulegur tími og stolt af því að hafa fengið bæði að spila fyrir Val og þjálfa þar."


Þakklát og stolt af áhuganum
Adda hefur fengið símtöl eftir að ljóst varð að hún yrði ekki áfram hjá Val.

„Ég hef fengið ótrúlega mikið af skemmtilegum tilboðum, tekið mjög mörg spjöll við félög og er þakklát og stolt af því hversu margir hafa heyrt í mér. Fyrstu vikurnar var ég ákveðin í að segja nei við alla, svo líða vikurnar og ég finn að ég sakna fótboltans. Ég sakna þess að gefa af mér eins og ég veit að ég get gert. Ég brenn ennþá fyrir það að þjálfa. Það eru spennandi verkefni sem ég gæti verið að fara í."

Þú ert þá ekki búin að segja nei við öllu?

„Það eru alveg samtöl í gangi sem ég held gangandi og ákveð í framhaldinu hvort þau passi mér og því sem mig langar að gera, fjölskylduaðstæðum og félaginu sjálfu sem ég er í viðræðum við," segir Adda.
Athugasemdir
banner
banner