Fundað um Pochettino - Man City tryggir sér undrabarn - Arsenal ætlar að styrkja hópinn
banner
   mán 09. janúar 2023 15:54
Elvar Geir Magnússon
Myndband: Þegar Bale pakkaði Íslandi saman í Cardiff
Mynd: Getty Images
Gareth Bale, fyrirliði velska landsliðsins og fyrrum leikmaður Tottenham og Real Madrid, tilkynnti í dag að hann væri búinn að leggja fótboltaskóna á hilluna.

Hann átti sigursælan feril og upplifði margt í boltanum en mér þykir við hæfi á þessum tímapunkti að rifja upp leik sem ég mun aldrei gleyma; þegar Bale hélt sýningu gegn íslenska landsliðinu í vináttulandsleik í Cardiff 2014.

Undirritaður var eini íslenski fjölmiðlamaðurinn á umræddum leik en íslenska liðið réði engan veginn við Bale sem var arkitektinn að öllum þremur mörkum þeirra velsku í 3-1 sigri.

Fyrsta mark Wales kom eftir aukaspyrnu Bale, annað markið var frákast eftir skot hans og það þriðja kom síðan eftir stórkostlegt einstaklingsframtak. Það mark kemur eftir um 5:25 í myndbandinu hér að neðan.

Sumarið á undan hafði Real Madrid gert Bale að dýrasta leikmanni sögunnar og leikmaðurinn geislaði af sjálfstrausti. Ari Freyr Skúlason bakvörður Íslands var í algjörri yfirvinnu allan leikinn.

Þess má geta að Jóhann Berg Guðmundsson skoraði eina mark Íslands í leiknum en hann jafnaði þá í 1-1.

Wales 3 - 1 Ísland (4. mars 2014)
1-0 James Collins ('12)
1-1 Jóhann Berg Guðmundsson ('26)
2-1 Sam Vokes ('64)
3-1 Gareth Bale ('70)


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner