Það fóru tveir leikir fram í fyrstu umferð í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í kvöld þar sem Manchester City tók á móti ríkjandi meisturum Barcelona í risaslag, með hina frönsku Stéphanie Frappart á flautunni.
Man City var sterkara liðið í fyrri hálfleik og tók forystuna með marki frá Naomi Layzell á 36. mínútu. Vivianne Miedema gaf stoðsendinguna.
Börsungar voru talsvert sterkari aðilinn í síðari hálfleik þar sem þær spænsku tóku stjórn á leiknum, en tókst þó ekki að gera jöfnunarmark.
Þess í stað skoraði Khadija Shaw með einni af tveimur marktilraunum heimakvenna í síðari hálfleik, eftir undirbúning frá Layzell sem skoraði fyrra markið.
Lokatölur urðu 2-0 í Manchester og frábær byrjun hjá enska stórveldinu. Vålerenga og Juventust áttust einnig við í kvöld.
Sædís Rún Heiðarsdóttir lék allan leikinn á heimavelli gegn Juventus en tókst ekki að koma í veg fyrir 0-1 tap.
Sofia Cantore skoraði eina mark leiksins á 29. mínútu, en leikurinn var afar opinn og jafn þar sem bæði lið fengu góð tækifæri til að bæta mörkum við leikinn en tókst ekki.
Norska stórveldið Vålerenga spilaði flottan leik en tókst ekki að skora framhjá Pauline Peyraud-Magnin þrátt fyrir góðar marktilraunir.
Vålerenga heimsækir Arsenal í næstu umferð, áður en liðið mætir Bayern í gríðarlega erfiðum dauðariðli.
Man City 2 - 0 Barcelona
1-0 Naomi Layzell ('36)
2-0 Khadija Shaw ('77)
Valerenga 0 - 1 Juventus
0-1 Sofia Cantore ('29)
Athugasemdir