Paul Wanner er einn af bestu ungu leikmönnunum í þýsku deildinni um þessar mundir en þessi 18 ára gamli miðjumaður getur valið um að spila fyrir Þýskaland eða Austurríki.
Wanner er á láni hjá Heidenheim frá Bayern en hann hefur skorað tvö mörk og lagt upp eitt í níu leikjum í þýsku deildinni á þessari leiktíð.
Hann hefur spilað tvo landsleiki fyrir U21 árs landslið Þýskalands en Julian Nagelsmann valdi hann í A landsliðið fyrir komandi verkefni en Wanner hafnaði því hins vegar og vill vera áfram í U21.
Vangaveltur eru um það hvort hann vilji spila fyrir Austurríki frekar en Þýskaland.
„Það vita það allir að samband okkar Nagelsmann er frábært þar sem við höfum þekkst í langan tíma og erum stanslaust í samskiptum. Ég vil elta mína leið og þróun. Ég hlakka til að spila með þýska U21 liðinu og festa mig í sessi þar," sagði Wanner.