Sara Björk Gunnarsdóttir var á skotskónum í 4-0 sigri Juventus á Pomigiliano í Seríu A á Ítalíu í dag, en þetta var fyrsta mark hennar síðan í mars.
Fyrrum landsliðskonan var í byrjunarliði Juventus og gerði fyrsta markið í leiknum þegar aðeins hálftími var liðinn.
Sara stangaði þá fyrirgjöf Lindsey Tomas í fjærhornið. Hún fór síðan af velli á 83. mínútu, en lokatölur urðu 4-0 og er Juventus í 2. sæti með 27 stig, jafnmörg og Roma, sem á leik til góða.
Kristín Dís Árnadóttir heldur þá áfram að gera góða hluti með danska liðinu Bröndby.
Hún lagði upp sigurmarkið fyrir Sofie Hornemann á 15. mínútu leiksins í 1-0 sigrinum á Kolding og hjálpaði þannig liðinu að styrkja stöðu sína á toppnum.
Kristín hefur verið að spila í hægri bakverði í síðustu leikjum og virðist kunna vel við sig þar.
Bröndby er með 28 stig í efsta sæti, fimm stigum á undan Nordsjælland.
Athugasemdir